Fótboltaþing á morgun

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Á morgun, mánudag, fer fram fótboltaþing um framtíðarsýn fótboltans í Grindavík.  Samkoman fer fram í grunnskólanum og hefst klukkan 18:00

Allir velkomnir en þinginu stjórnar Pálmi Ingólfsson. Mikill uppgangur hefur verið í knattspyrnunni í Grindavík undanfarin 20 ár þar sem fórnfúst starf sjálfboðaliða, foreldra, uppbygging mannvirkja og metnaðarfullt starf hefur verið haft að leiðarljósi og skilað Grindavík í fremstu röð þrátt fyrir smæð bæjarfélagsins. En nú má segja að komið sé að tímamótum í fótboltanum hér í bæ því nú þarf að horfa til framtíðar til þess að taka skref upp á upp við. Hvar viljum við standa í fótboltanum í Grindavík árið 2020?

Hvert skal stefna í starfi og rekstri meistaraflokks karla og kvenna og yngri flokkunum? Hvers konar framtíðar aðstöðu viljum við sjá rísa? Hvert skal vera leiðarljós fótboltans? Hvers konar stuðning viljum við sjá við meistaraflokkanna?

Markmið fundarins er að fá allt knattspyrnuáhugafólk í Grindavík saman til þess að taka þátt í mótun hugmynda um framtíðarsýn fótboltans í bænum. Fyrirkomulag fundarins verður svokallað heimskaffi og þannig gefst öllum tækifæri til þess að koma sínum skoðunum á framfæri. Fundargestum er skipt niður á nokkur borð þar sem eitt umræðuefni er á hverju borði (t.d. starfsemi yngri flokkanna) og fyrirliði stjórnar umræðum. Eftir ákveðinn tíma fara allir nema fyrirliðinn frá borðinu og á það næsta til að ræða málin þar líka og í lok fundar koma fyrirliðar upp og taka saman helstu niðurstöður.

Umræðuefni:
Meistaraflokkur karla
Meistaraflokkur kvenna
Yngri flokkar
Framtíðar aðstaða
Leiðarljós/stuðningsfólk