Dagur Austmann í Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Grindavík hefur samið við hinn fjölhæfa leikmann Dag Austmann Hilmarsson sem gerir samning við Grindavík út tímabilið 2024. Dagur er 25 ára gamall og er honum ætlað að leika stöðu vinstri bakvarðar á komandi tímabili.

Dagur kemur til liðs við Grindavík frá Leikni Reykjavík þar sem hann hefur leikið undanfarin þrjú tímabil. Hann getur leikið allar stöður í varnarlínunni og er jafnvígur á bæði hægri og vinstri fæti. Dagur ólst upp hjá Stjörnunni en hefur einnig leikið með Aftureldingu, ÍBV og Þrótti Reykjavík. Jafnframt á Dagur að baki 21 leik með yngri landsliðum

„Ég er mjög ánægður með að ganga til liðs við Grindavík. Þetta er klúbbur með ríka sögu í efstu deild og ég finn að það er mikill metnaður hjá félaginu til komast á ný í Bestu deildina. Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímabili og get varla beðið eftir að hefjast handa með Grindavík,“ segir Dagur Austmann Hilmarsson.

„Það er mjög ánægjulegt að Dagur hafi valið Grindavík úr þeim fjölda liða sem höfðu áhuga á hans kröftum. Við erum að setja saman mjög spennandi lið sem ætlar sér stóra hluti á næsta tímabili. Dagur er flottur karakter og líður vel á landsbyggðinni. Hann á eftir að passa vel inn í okkar leikmannahóp,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Dagur Austmann mun hefja æfingar með Grindavík á nýju ári. Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Dag Austmann velkominn til félagsins og væntum við mikils af honum á komandi tímabili.

Áfram Grindavík!