Vísir, Þorbjörn og Haustak áfram aðalstyrktaraðilar knattspyrnudeildar Grindavíkur

Knattspyrna Knattspyrna

Sjávarútvegsfyrirtækin Haustak hf, Vísir hf. og Þorbjörn hf. munu áfram styðja af krafti við Knattspyrnudeild Grindavíkur en nýr styrktarsamningur var undirritaður í dag í húsakynnum knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Pétur Hafsteinn Pálsson frá Vísi hf. og Gunnar Tómasson frá Þorbirni hf. undirrituðu nýjan samning ásamt Gunnari Má Gunnarssyni, formanni knattspyrnudeildar Grindavíkur. Samningurinn gildir til næstu tveggja ára.

Þessi fyrirtæki hafa um árabil verið aðalstyrktaraðilar Knattspyrnudeildar Grindavíkur. Dótturfyrirtæki þessara sjávarútvegsfyrirtækja er fyrirtækið Codland og mun merki þess áfram prýða keppnisbúninga félagsins hjá meistaraflokkum knattspyrnudeildar og á keppnisbúningum yngri flokka.

„Þetta eru okkar sterkustu styrktaraðilar og hafa verið gríðarlega mikilvægir í uppbyggingu á öllu íþróttastarfi í Grindavík s.l. áratugi,“ segir Gunnar Már, formaður knattspyrnudeildar UMFG. „Grindavík mun spila næstu árin áfram í búningum merktum Codland sem er fyrirtæki í eigu fyrrgreindra fyrirtækja og sérhæfir sig í að búa til verðmætar vörur úr áður vannýttu hráefni úr sjávarútvegi. Knattspyrnudeild Grindavíkur þakkar þessum fyrirtækjum fyrir ómetanlegan stuðning.“

Mynd/UMFG: Undirritun á nýjum samningnum fór fram með nokkuð táknrænum hætti miðað við þá stöðu sem er uppi í samfélaginu. F.v. Pétur Pálsson frá Vísi hf., Gunnar Már Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG, og Gunnar Tómasson frá Þorbirni hf.