Bjarki Aðalsteinsson í Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík hefur fengið góðan liðsstyrk því varnarmaðurinn Bjarki Aðalsteinsson hefur skrifað undir samning við félagið út tímabilið 2024. Bjarki er 31 árs gamall og leikið alls 215 leiki í deild og bikar á ferli sínum. Bjarki leikur stöðu miðvarðar en hann er 196 cm á hæð.

Bjarki hefur leikið með Leikni Reykjavík frá árinu 2017. Hann er uppalinn í Breiðablik en hefur einnig leikið með Augnablik, Reyni Sandgerði, Þór og Selfoss á ferli sínum.

„Ég er afar glaður að fá Bjarka í okkar raðir. Þetta er frábær karakter og mikill leiðtogi. Hann mun styrkja okkar varnarlínu verulega með reynslu sinni og færni. Ég er þess fullviss að Bjarki á eftir að smellpassa inn í þá vegferð sem Grindavík er að hefja í ár,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur.

„Ég er ótrúlega ánægður að vera kominn í þetta sögufræga félag. Ég finn fyrir miklum krafti og metnaði hjá klúbbnum og hlakka til að leggja mitt af mörkum. Það eru mjög spennandi tímar framundan hjá Grindavík,“ segir Bjarki Aðalsteinsson.

Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Bjarka Aðalsteinsson hjartanlega velkominn til félagsins og hlökkum við til að sjá hann í gulu með Grindavík á leiktíðinni.

Áfram Grindavík!