Alexander Veigar tekur slaginn með Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Alexander Veigar Þórarinsson hefur skrifað undir samning við Grindavík sem gildir út tímabilið 2023. Alexander hefur undanfarin tvö tímabil leikið með GG í 4. deildini en þessi frábæri leikmaður ákvað eftir tímabilið 2020 að leggja keppnisskóna með Grindavík á hilluna.

Alexander hefur í vetur fengið brennandi áhuga á að leika knattspyrnu á nýjan leik og hefur æft með liði Grindavíkur í vetur. Þar hefur hann staðið sig frábærlega og mun taka slaginn með Grindavík í Lengjudeildinni næsta sumar.

Alexander Veigar er 34 ára gamall og hefur alls leikið 241 leik í deild og bikar á ferlinum og skorað í þeim 47 mörk. Alexander er uppalinn hjá Grindavík en hefur einnig leikið með Fram, Reyni Sandgerði, BÍ/Bolungarvík og Þrótti R. á feril sínum í meistaraflokki sem hófst árið 2005.

„Ég er gríðarlega stoltur af því að semja við Alexander Veigar og er þakklátur fyrir að hann sé tilbúinn í þetta ferðalag með okkur,“ segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur. „Alexander er frábær knattspyrnumaður sem býr yfir mikilli reynslu og hefur þrisvar farið upp úr Lengjudeildinni sem leikmaður. Hann kemur til með að styrkja okkar lið verulega, innan vallar sem utan.“

Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Alexander Veigar hjartanlega velkominn aftur til félagsins en hann sinnir einnig þjálfun yngri flokka hjá félaginu. Mun það eflaust gleðja stuðningsmenn félagsins að sjá þennan frábæra knattspyrnumann aftur í Grindavíkurbúningi á komandi tímabili.

Áfram Grindavík!