Alexander Veigar leggur skóna á hilluna

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Alexander Veigar Þórarinsson hefur ákveðið leggja skóna á hilluna og mun því ekki leika með Grindavík í Lengjudeildinni á næsta tímabili. Alexander Veigar er 32 ára gamall og hefur alls leikið 241 leik í deild og bikar á ferlinum og skorað í þeim 47 mörk. Alexander er uppalinn hjá Grindavík en hefur einnig leikið með Fram, Reyni Sandgerði, BÍ/Bolungarvík og Þrótti R. á feril sínum í meistaraflokki sem hófst árið 2005.

Það verður sjónarsviptir af Alexander úr liði Grindavíkur en hann býr yfir ótrúlegum hæfileikum og er frábær íþróttamaður. Alexander náði þeim áfanga sl. sumar að leika 100 leiki með Grindavík í deild og bikar.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun en sú rétta fyrir mig. Ég hef leikið í meistaraflokki í 15 ár og líf mitt hefur að miklu leyti snúist um fótbolta. Þetta er rétti tímapunkurinn til að láta gott heita,“ segir Alexander Veigar. „Ég er mjög þakklátur mínu uppeldisfélagi Grindavík fyrir allt sem félagið hefur gert fyrir mig. Ég hef einnig verið svo heppinn að kynnast mörgum ótrúlegum karakterum í boltanum sem eru margir hverjir vinir mínir í dag. Þetta hefur verið ótrúlegt ferðalag og þakklæti er mér efst í huga þegar ég lít tilbaka á ferilinn.“

Knattspyrnudeild Grindavíkur vill þakka Alexander kærlega fyrir sitt framlag til félagsins. Þarna er á ferðinni frábær leikmaður og félagsmaður. Við óskum honum alls hins besta í þeim verkefnum sem hann mun nú taka sér fyrir hendur!

#takklexi