Grindavík er komið áfram í Borgunarbikarnum eftir góðan sigur á skagamönnum í gær. Lokatölur voru 4-1 fyrir Grindavík þar sem Juraj Grizelj og Magnús Björgvinsson sáu um að skora mörkin.
Grindavíkurliðið var að spila mjög vel í gær fyrir utan smá kafla þegar ÍA minnkaði muninn í seinni hálfleik. Daníel Leó og Andri ásamt Óskari í markinu höfðu tiltölulega náðugan dag enda voru Markó og Alex fyrir framan þá að spila frábærlega.
Öll mörk Grindavíkur voru stórglæsileg. Juraj byrjaði með að setja hann snyrtilega í stöngina inn af skoti rétt fyrir utan teig.
Juraj kom Grindavíkur svo í 2-0 þegar hann laumaðist inn aftan að varnarmanni ÍA og stal af honum boltanum og skaut fram hjá Páli í markinu. Staðan því 2-0 í hálfleik.
Skagamenn minnkuðu muninn á 60. mínútu með týpísku Hjartar Hjartarsonar marki, réttur maður á réttum stað og laumaði boltanum inn af stuttu færi.
Magnús Björvinsson átti svo tvö síðustu mörk leiksins. Það fyrra og jafnframt þriðja mark Grindavíkur með góðu skoti langt utan af velli eftir sendingu frá Alex og það seinna með skalla eftir langa sendingu frá fyrirliðanum Jósef Jósefssyni.
Eins og áður hefur komið fram þá var Grindavík að spila skemmtilegan bolta og góð barátta í strákunum. Næsti leikur er á sama stað gegn sama liði þar sem við mætum ÍA á laugardaginn í deildinni.