Aðalfundur knattspyrnudeildar Grindavíkur fór fram fimmtudaginn 25. febrúar síðastliðinn í Gula húsinu við Austurveg. Hefðbundin aðalfundarstörf voru á dagskrá og sem fyrr var Bjarni Andrésson fundarstjóri.
Gunnar Már Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar, fór fyrir merkilegt knattspyrnuár sem einkenndist að miklu leyti af heimsfaraldri. Gunnar Már hvatti bæjaryfirvöld í ræðu sinni til að hlúa betur að aðstöðu knattspyrnudeildarinnar:
„Við höfum verið að dragast afturúr aðstöðulega séð s.l. ár og sjáum við ekki fyrir okkur að neitt verði gert til frambúðar fyrir okkur hér á næstu 2-3 árum til að bæta hana. Það er í farvatninu að fá nýja gáma til að sinna miðasölu og sjoppumálum hjá okkur en við vonum svo sannarlega að yfirvöld hér í Grindavík fari að sjá að sér í þessum málum og gera eitthvað til frambúðar hérna fyrir okkur. Við erum að leita út fyrir bæjarfélagið með flesta flokka í karla og kvennaflokki hjá okkur vegna þeirra móta sem við tökum þátt í á hverju ári og finnst okkur það bagalegt að þurfa þess.
Við þurfum á meiri framsýni bæjarfulltrúa að halda og frekari fjárfestingu bæjarins á okkar íþróttasvæði og hvetjum bæinn til þess að skipuleggja næstu framkvæmdir í bænum og forgangsraða þeim. Við eigum að geta boðið okkar fólki uppá góða aðstöðu til að stunda sína íþrótt og styðja einnig við bakið á fólkinu sem er að gefa sína vinnu í félagið með því að skapa aðstöðu sem fólki líður vel að vinna í,“ sagði Gunnar Már í ræðu sinni á aðalfundinum.
Lesa má rafræna skýrslu stjórnar knattspyrnudeildar með því að smella hér.
Ragnheiður Þóra Ólafsdóttir, formaður unglingaráðs, fór yfir gott íþróttaár hjá yngri flokkum félagsins. Þar stóð uppúr Íslandsmeistaratitill 5. flokks drengja frá því fyrr í haust. Aðstöðumál deildarinnar voru Ragnheiði Þóru einnig hugleikin:
„Það málefni sem brennur helst á okkur í unglingaráði er ennþá það sama og ég nefndi í skýrslu minni árið 2018. Það er æfingaaðstaðan okkar. Við sitjum því miður ekki við sama borð og önnur lið hvað það varðar, og síst ekki hér í Grindavík og það erum við alls ekki sátt með. Frá hausti og fram á vor höfum við ekki löglegan völl á stærð til afnota sem er mjög miður. Það sést bersýnilega á vorin, þegar við leikum við lið á velli sem er í fullri stærð. Þá skilur himinn og haf á milli liða, enda liðnir rúmir sjö mánuðir frá því að iðkendur okkar hafa æft á stórum velli. Svo ég tali nú ekki um allan aksturinn fyrir foreldra og auka tíma sem fer í að sækja alla okkar heimaleiki á öðrum völlum í Reykjavík vegna aðstöðuleysis okkar.“
Lesa má skýrslu unglingaráðs með því að smella hér.
Breytingar á stjórn
Gunnar Már Gunnarsson var endurkjörinn formaður deildarinnar. Litlar breytingar verða á stjórn deildarinnar. Þórarinn Ólafsson ákvað að gefa ekki kost á sér til frekari setu og er honum þakkað sitt starf í þágu deildarinnar. Þórhallur Benónýsson var kjörinn á nýjan leik í stjórn deildarinnar.
Stjórn deildarinnar 2021-2022 skipa: Gunnar Már Gunnarsson, formaður; Hjörtur Waltersson, Haukur Einarsson, Helgi Bogason, Jóhann Helgason, Ægir Viktorsson og Þórhallur Benónýsson.
Varastjórn skipa eftirfarandi: Guðmundur Örn Guðjónsson, Jónas Þórhallsson, Rúnar Sigurjónsson, Petra Rós Ólafsdóttir og Steinberg Reynisson.
Hagnaður af rekstri deildarinnar
Hjörtur Waltersson, gjaldkeri knattspyrnudeildar, gerði grein fyrir rekstrarafkomu deildarinnar á árinu 2020. Reksturinn gekk mun betur en áætlanir gerðu ráð fyrir og skilar deildin rúmum 22 mkr. hagnaði á árinu sem leið.
Helsta ástæða svo jákvæðrar rekstrarafkomu er ekki síst fólgin í því að launakostnaður lækkaði nokkuð á milli ára þökk sé hagræðinu sem gerð var á rekstri deildarinnar í upphafi heimsfaraldurs.
Deildin var í árslok 2020 skuldlaus og hefur tekist að greiða upp allar skuldir félagsins frá fyrri árum. Skuldir félagsins lækkuðu um 10 mkr. á milli ára og er því eigið fé og skuldir samtals 22,3 mkr. í árslok 2020.
Þrátt fyrir góða afkomu á rekstrarárinu 2020 eru blikur á lofti í fjárhagsstöðu deildarinnar og mikilvægt að halda þétt utan um reksturinn. Margir styrktarsamningar deildarinnar runnu út í árslok 2020 og eru nokkrir þeirra enn óendurnýjaðir fyrir komandi keppnistímabil. Einnig gerir deildin ekki ráð fyrir tekjum vegna sölu leikmanna á rekstrárinu 2021 en félagið fékk 4,5 mkr. fyrir sölu leikmanna á síðasta rekstrarári. Gert er því ráð fyrir rekstrartapi á árinu 2021 sem helgast af þeirri óvissu sem er í kringum heimsfaraldur.
Sjá má ársreikning Knattspyrnudeildar Grindavíkur fyrir árið 2020 með því að smella hér.