Aðalfundur knattspyrnudeildar

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Aðalfundurinn hjá Knattspyrnudeildinni var haldinn fyrir helgi. Framkvæmdastjóri setti fundinn, Bjarni Andrésson var kosinn fundastjóri og Ingvar Guðjónsson fundaritari.

Jónas Þórhallsson las skýrslu stjórnar og Þórhallur Benónýsson fór yfir ársreikning 2013 og áætlun 2014.

Útúr stjórn fóru þeir Þórhalldur Benónýsson og Ingvar Guðjónsson og inn í stjórn komu Helgi Bogason og Eiríkur Leifsson.

Ný inní varastjórn kom Petra Rós Ólafsdóttir.

Undir önnur mál voru þeim Gunnlaugi Hreinssyni og Helga Bogasyni afhentar gjafir í tilefni stórafmælis þeirra, Gulli 60 ára og Helgi 50 ára.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skýrsla stjórnar Knattspyrnudeilar UMFG 2013
Aðalfundur 20. febrúar 2014

Ágætu félagar

Fyrir 40 árum, 1974 flutti undirritaður til Grindavíkur og hafði félagskipti úr Reyni Sandgerði yfir í Grindavík. Fótboltabakterían fylgdi mér til Grindavíkur og hér ég starfað við fótboltann nærri óslitið síðan með góðu fólki. Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í þessu starfi, fara með Grindavík úr neðstu deild á Íslandi uppí efstu deild og í Evrópukeppni samhliða því að byggja upp aðstöðuna. Hér var aðeins malarvöllur og gömul rúta sem notuð var sem búningsklefi fyrst þegar ég kom til Grindavíkur 1974.

Þetta hefur verið mikið ævintýri og þvi hefur einnig fylgt talsvert mótlæti. Fall skiptir ekki eins miklu máli og hitt að geta staðið upp aftur. Mótlætið höfum við notað sem fóður til að ná í næsta markmið. Oft hef ég verið spurður af hverju ég sé að eyða öllu mínu lífi í þetta fótboltabrölt. Svarið er einfalt, þetta snýst um markmið, drauma og hugsjónir sem ekki er hægt að kaupa í búðarhillu, heldur er aðeins hægt að upplifa og njóta.
Okkar metnaður og markmið er að spila í efstu deild, til þess þarf mikla fórn og vinnu frá öllum sem láta sér annt um knattspyrnu. Það er ekki nóg að tala um hlutina, það þarf einnig að láta verkin tala. Þegar Grindavík lék í 3. deild var hlutfall Grindvíkinga í meistaraflokki karla nærri 100% . Hlutfallið lækkaði í 90% þegar við lékum í 2 deild og var á milli 65% til 80 % árin sem við léku í efstu deild. Á síðasta ári var hlutfallið í sögulegu lámarki um 37%. Hér er verðugt verkefni sem finna þarf úrlausnir á. Við þurfum að fá leikmenn til að styrkja okkar lið, en gæta þess að hafa gæðin umfram magn. Marmið okkar er að hafa 35 leikmenn úr meistaraflokki og 2 flokki á samning eins og við gerðum strax í upphafi þegar byrjað var að gera KSÍ-samninga 1990.
Fjöldi iðkenda sem stunda knattspyrnu í Grindavík eru um 370 og tala landsliðsmanna sem leikið hafa með Grindavík eru 25 karlar með 156 landsleiki og 8 konur með 112 landsleiki. Ragnar Eðvarðsson var fyrsti landsliðsmaður Grindvíkinga, 1977 þegar hann spilaði með U-18 landsliði Íslands. Ólafur Örn Bjarnason spilaði 27 A- og 4 U-21 landsleiki og varð fyrsti atvinnumaður okkar. Tveir ungir og efnilegir leikmenn spiluðu sína fyrstu landsleiki á árinu 2013, þeir Daníel Leó Grétarsson U-19 og Hilmar Andrew McShane U-16

Það voru miklil vonbrigði ná ekki að tryggja Grindavík sæti í efstu deild karla og kvenna síðastliðið haust. Bæði liðin voru í forystu sæti lengst af en það vantaði eitt stig í lokin hjá meistaraflokk karla og stelpunar enduðu í umspili á móti Fylki og töpuðu naumt.

Þrátt fyrir mikið aðhald í rekstri deildarinnar 2013 tókst ekki að ná endum saman og niðurstaða er tap uppá rúmar 4,3 milljónir með fjármagnsliðum. Umgjörðin hjá Grindavík hefur ekkert breyst eftir fall í 1. deild, það sem okkur vantar eru tekjurnar sem liðin fá í efstu deild.

Samstarf Knattspyrnudeildar og Lýsi hf
Samstarf Knattspyrnudeildar og Lýsi hf. hófst 1984 og fögnum við 30 ára samstarfi á árinu 2014. Aðeins eitt lið í heiminum getur státað af lengra samstarfi en það er PSV og PHILIPS í Hollandi sem er síðan 1982 og núverandi samningur milli þeirra gildir til 2016. Samningurinn við Lýsi er út 2015 og það er von okkar að við náum að halda áfram þessu samstarfi sem hefur verið einstakt og alið af sér fjölda iðkenda í búningum merktum Lýsi. Þökkum við fjölskyldunni sem stendur á bak Lýsi fyrir þessi 30 ár.

Knattspyrnudeildin hefur staðið fyrir firmakeppni um hver áramót frá 1986. Þetta hefur verið fastur liður um hver áramót og vel sótt af keppendum og áhorfendum, milli 18 og 20 lið hafa verið skráð á hverju ári. En í des 2012 varð breyting á þegar aðeins 6 lið skráðu sig til keppni og sami fjöldi í des 2013. Aflýsa varð mótinu í bæði skiptin. Þarna eru áhrifin að koma í ljós eftir að fótboltinn fór út úr íþróttahúsinu 2008 og yfir í Hópið, þá lagðist innanhúsfótboltinn á parketi af.

Getraunir héldu áfram að aukast jafnt og þétt frá 2011 þegar við réðumst í markaðsetningu á sölu getrauna gegnum viðburðalista með um 300 nöfnum sem við tókum saman í upphafi Bacalaomótsins. Tekjurnar af getraunum fyrir 2013 eru rúmar 3,2 milljónir. Umsjónarmenn getrauna eru Bjarki Guðmundsson og Birgir Hermannsson og þeim til aðstoðar er Gunnar Már Gunnarsson.

Sameiginlegt Þorrablót Knattspyrnu- og Körfuknattleiksdeildar var haldið í fyrsta sinn 2013 og tókst vel og er komið til að vera. Þessi viðburður og vinna sem þessu tengist bætist ofan á daglegan rekstur hjá stjórnarmönnum og því var ákveðið að skipa strax í Þorrablótsnefnd 2015,
fá fólk utan stjórnar til að sjá um þessa skemmtun sem er um leið fjáröflun deildanna.

Bacalaomótið var haldið í 3ja sinn í tengslum við Sjóarann síkáta 2013, um 100 keppendur voru mættir til að skemmta sér. Uppselt var í saltfiskveisluna sem sem við héldum í húsnæði Stakkavíkur og tekur 200 manns í sæti. Stjórnarmenn lögðu mikla vinnu við að þrífa og mála allt húsnæðið og breyta í skemmtistað.
Meistaraflokkur karla og kvenna fóru saman í æfingaferð til Spánar í mars s.l. Þessu fylgir mikil vinna í fjáröflun hjá leikmönnum og stjórnarmönnum. Meðal annars bóna bíla, halda fótboltamót og selja ýmsan varning. Þá er komin hefð á árlegt mót í Svíþjóð hjá hjá 3. flokki karla og kvenna sem fara erlendis til skiptis. Krakkarnir fjármagna þessa ferðir ástamt foreldrum með vinnu í Ice-West við pökkun á dósum sem hefur gengið vel og þökkum við eigendum Ice-West fyrir þetta samstarf. Þarna fá þessir unglingar að kynnast því að axla ábyrgð um leið og þau vinna fyrir þessum ferðum.

Árangri Íslands má líkja við kraftaverk
Íslensk félagslið náðu sínum besta árangri í Evrópukeppni 2013, og höfðu rúmar 200 milljónir í tekjur. FH var nærri sæti í umspili meistaradeildarinnar en fór í umspil Evrópudeildarinnar. Breiðablik féll úr leik eftir vítaspyrnukeppni á Laugardalsvelli þegar í húfi var sæti í umspili Evrópudeildarinnar. ÍBV og KR komust í 2. umferð og alls léku því liðin fjögur 20 Evrópuleiki sem er met.
Mikill velgengni hefur verið hjá öllum landsliðum Íslands. Það má teljast kraftaverk hversu vel íslenska A-landsliði karla gekk vel í undankeppninni HM og enduðum við í umspili við Króatíu í nóvember s.l. Gerðum makalaust jafntefli í fyrri leikum heima og töpuðum 0-2 í síðari leiknum. Það er með ólíkindum að svona lítil þjóð hafi átti möguleika á því að komast á HM í Brasilíu.
Davor Suker forseti Knattspyrnusambands Króatíu heimsótti Grindavík í fylgd félaga síns Janko í tilefni fyrri umspils leik Íslands og Kóatíu 14. nóv 2013. Þeir spiluðu saman í fjögur ár með liði Osijek og hafa haldið sambandi síðan. Suker heilsaði upp á stjórn knattspyrnudeildar og skoðaði íþróttamannvirkin og leit við á æfingu hjá yngri flokkum. Suker kom færandi hendi og gaf deildinni bolta og var svo leystur út með gjöfum, lýsi og saltfisk. Stjórnarmenn fóru saman á síðari leikinn í Króatíu og nutu gestristni Davor Suker.

Íþróttamannvirkin
Það hafa verið miklar umræður um ný íþróttamannvirki sem eru að rísa austan við íþróttahús. Ég vil hrósa öllum deildum fyrir mikla samstöðu og heiðarlega umræðu sem fóru fram innan veggja UMFG og bæjarstjórnar í stað þess að fara með málið í fjölmiðla. Bæjarstjórn ásamt aðalstjórn UMFG neituðu að hlusta á öll rök sem deildir UMFG settu fram og héldu áfram sínu striki. Um áramótin 2012 -2013 komu formenn deilda UMFG saman og sendu tvö bréf til bæjarstjórnar, undirrituð af formönnum þar sem þessum mannvirkjum var mótmælt og að hafa ekki fulltrúa frá deildum við borðið við hönnun og staðsetningu á þessum mannvirkjum.
Það er ótrúlegt en satt að aðalstjórn UMFG skuli hafa staðið gegn sínu fólki í þessu máli. Annað sem þetta sama fólk ber ábyrgð á og er mikilvægt að benda á, hvernig staðið var að sölunni á félagsheimilinu Festi sem UMFG ásamt Kvenfélaginu áttu 20% hlut í. Engin kynning eða umræða um þetta mál var innan deilda UMFG og flestir flokkar sem buðu fram í bæjarstjórnarkosningum 2010 lofuðu uppbyggingu á Festi og sviku íbúa Grindavíkur.
Það von mín að það verði samstaða meðal bæjarfulltrúa og deilda UMFG um uppbyggingu á næstu áföngum íþróttamannvirkja eftir bæjarstjórnarkosningar í vor, Það má ekki gefa tommu eftir þegar kemur að forvarnarstarfi og íþróttamálum. Knattspyrnudeildin hefur lagt fram skýr áform og óskir um uppbyggingu við Hópið og Stúku.

Knattspyrnudeildin er rekin eins og fyrirtæki með öllum skyldum og er gríðarstór vinnustaður.
Knattspyrnudeildin hefur tekið saman stutta sögu ÍG og UMFG frá 1935. Þar kemur m.a. fram að núverandi aðalleikvangurinn er eign UMFG. Það var síðla árs 1947 sem byrjað var að laga land þar sem núverandi íþróttavöllur stendur á. Landeigendur Járngerðarstaðatorfunar í Grindavík gáfu Íþróttafélagi Grindavíkur svæði undir fótboltavöll og til annarra útiíþrótta.

Það hafa verið villandi upplýsingar um okkar starf og mikil öfund í okkar garð öll þessi ár og er enn. Fótbolti og kvóti eiga það sameiginlegt að starfa úti í náttúrunni og ala af sér duglegt fólk. Knattspyrnudeild UMFG er lögaðili, veltan er um kr 130 milljónir á ári. Starfsígildin eru um 20 og útsvar sem fellur af launagreiðslum er um kr 8 milljónir. 2012 var Knattspyrnudeildin 15 stærsta fyrirtækið í Grindavík.

Ég get sagt það hér að ekkert félag hér í bæ hefur unnið jafn rausnarlega að því að koma sér upp aðstöðu til að vera í fremstu röð á Íslandi samhliða daglegum rekstri og um leið haldið bæjarlífinu í lit. Grindavíkurbær hefur átt því láni að fagna að sú aðstaða sem byggð hefur verið í Grindavík tengd knattspyrnu, var byggð í samvinnu Grindavíkurbæjar, fyrirtækja og félagsmanna úr knattspyrnudeild. Varlega áætlað er hlutur Grindavíkurbæjar í íþróttamannvirkjum um 50%. Núverandi íþróttahús var byggt með gömlu reglunni, ríkið greiddi 80% á móti 20% frá sveitarfélagi.
Ég barðist fyrir því að Sveitarfélög á Ísland hafa fengið vsk-inn endurgreiddan af allri vinnu frá 1. mars 2009 og hef hvatt þingmenn til að klára þetta verkefni þannig að Sveitarfélög fá allan vsk-inn endurgreiddan af vinnu og efni. Auk þess hef ég barist fyrir því að aflétta tryggingagjaldi og vsk-skyldu af öllum íþróttafélögum.
Í dag eru deildir UMFG komnar að þolmörkum í tekjuöflun. Til að tvöfalda tekjur knattspyrnudeildar og gera hana sjálfbæra þarf að byggja upp framtíðaraðstöðu deildarinnar aftur úr stúku og við suðurendan á stúkunni, þar sem stuðningsmenn og fjölskyldufólk geti komið saman fyrir leiki og notið góðra veitinga og búnings- og wc aðstaða fyrir Hópið og aðalvöllinn á neðri hæð.

Fjöldi deilda innan UMFG
Fjölgun deilda innan UMFG hefur orðið síðustu ár og ég óttast að meðalmennskan muni ríkja innan skamms. Ástæðan er takmarkað fjármagn, fjöldi iðkenda og sjálboðaliða í Grindavík sem dreifist á þessar deildir. Þetta höfum við séð gerast í öðrum bæjarfélögum þar sem boðið var upp á sex til átta deildir og allt varð flatt og enginn fékkst til að starfa innan þessara deilda.
Félagsgjöld innan deilda UMFG voru innheimt af hverri deild áður en þeim var breytt í núverandi form. Félagsgjöldin ættu að vera um kr. 10.000.000.- en við fáum í dag kr 2.200.000.- sem iðkendur greiða til knattspyrnudeildar. Því vantar um kr 7.800.000.- sem við þurfum að afla sjálf. Í dag eru knattspyrnufélög almennt að innheimta milli kr. 50.000.- til kr 80.000.- þús á hvern iðkenda á ári, á móti kr 20.000.- hér í Grindavík. Óttinn við lág félagsgjöld er lítil eftirfylgni foreldra í stað þess ef gjaldið væri hærra myndu foreldrar passa upp á að barnið mætti á allar æfingar.

Ágætu félagar

Fyrir rétt tæpu ári síðan, 25. feb 2013 lést Halldór Sigurðsson verkstjóri í Þorbirni hf. Halldór var einn af okkar bestu stuðningsmönnum og lét sér annt um starf deildarinnar. Hann hjálpaði til við að fá styrktaraðila í áratugi og missti varla úr leik frá 1977. Hann sat í stjórn deildarinnar 1982 og 1983. Ég bið ykkur að heiðra minningu Halldórs Sigurðssonar með því að rísa úr sætum.
Um áramótin lét Eiríkur Leifsson framkæmastjóri Knattspyrnudeildar UMFG af störfum, eftir 4 ára starf. Við þökkum Eiríki fyrir hans ástríðu í starfi, hann hefur ákveðið að gefa kost á sér í stjórn og fáum við því að njóta starfskrafta hans áfram. Hjörtur Walters var ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar 1. jan 2014 og bjóðum við hann velkominn. Hjörtur sat áður í unglingaráði.
Helgi Bogason ákvað að hætta þjálfun meistaraflokks kvenna í haust. Við þökkum Helga fyrir það mikla starf sem hann hefur unnið í þjálfun fyrir okkur sl áratugi. Helgi hefur ákveðið að gefa kost á sér í stjórn deildarinnar. Ægir Viktorsson hætti með 2. flokk og tók við starfi Helga auk þess sem hann er yfirþjálfari yngriflokka og í fullu starfi hjá knattspyrnudeildinni. Janko hefur séð um þjálfun 2 flokks karla þar til við ráðum nýjan þjálfara í stað Ægis. Helgi Þór Arason sjúkraþjálfari kom til starfa fyrir keppnistímabilið 2013 og tók við af Róbert Magnússyni. Róbert mun aðstoða okkur áfram með sérverkefni. Þá hætti Þorsteinn Magnússon markmannsþjálfari og við hans starfi tók Daði Lárusson.
Við óskum Ingvari Guðjónssyni til hamingju með sæti í stjórn KSÍ, en þingið var haldið um sl helgi á Akureyri. Ingvar ásamt Þórhalli Benónýssyni gjaldkera ákváðu að hætta í stjórn og þökkum við þeim fyrir gott samstarf.
Að lokum þakka ég öllu starfsfólki, leikmönnum, stjórn og ráðum fyrir samstarfið. Síðast en ekki síst þakka ég stuðningsaðilum fyrir samstarfið og vona að grindvísk knattspyrna vaxi og dafni á komandi sumri og um ókomna tíð.

Jónas Karl Þórhallsson
Formaður Knattspyrnudeildar UMFG