3-3

Ungmennafélag Grindavíkur Knattspyrna

Góður endasprettur skilaði Grindavík stigi gegn Selfossi í kvöld.

Leikurinn var liður í 5.umferð Pepsi deildar karla.  Nokkrar breytingar voru gerðar á liði Grindavíkur frá síðasta leik.  Alexander Magnússon kom aftur inn eftir að hafa tekið út leikbann og var miðjunni ásamt Marko Valdimar Stefánssyni og Gavin Morrison þar sem tveir fyrrnefndu skiluðu fínum leik.  Í markinu var Óskar og Ólafur Örn, Loic Ondo og Mikael Eklund fyrir framan Óskar.  Ray og Matthías voru á kantinum/bakverðir, Ameobi frammi og Alex Freyr Hilmarsson á vinstri kantinum.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og fór leikurinn mikið fram á vallarhelming Grindavíkur á upphafsmínútunum.  Loic braut klaufalega af sér á 14. mínútu og úr aukaspyrnunni skoraði Jón Daði Böðvarsson.  Við markið fór Grindavík að sækja meira og að lokum fengu þeir aukaspyrnu á vinstri kantinum.  Boltinn barst inn á vítateig og eftir smá klafs barst boltinn til Matthíasar sem skoraði örugglega.  

1-1 í hálfleik en upphafsmínúturnar í þeim seinni jafn slakar og upphaf seinni hálfleiks í síðustu leikjum. Ólafur Karl Finsen kom Selfoss yfir á 47 mínútu og Stefán Ragnar Guðlaugsson bætti um betur á 76. mínútu, ótrúlegt að leikmaður sem hafði það hlutverk að passa upp á stöngina skuli ekki hafa tekist að gera það sómasamlega.

Okkar gamla hetja Scott McKenna Ramsay kom inn þegar hálftími var eftir af leiknum og sömuleiðis Óli Baldur og Daníel Leo Grétarsson og skilaði það sínu því Grindavík jafnaði leikinn úr tveimur öðrum föstum leikatriðum.  Á 87. mínútu átti Scotty aukaspyrnu inn í teig á Alexander sem skallaði í markið og Óli Baldur jafnaði leikinn þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir eftir hornspyrnu frá Scotty.

Karakter hjá okkar mönnum að koma svona til baka og ná í stigið en enn og aftur fær Grindavík mörg mörk á sig. Á hinn bóginn er Grindavík að skora mikið þannig að leikir Grindavíkur eru hin besta skemmtun þó úrslitin mættu vera betri.  Nú fær hópurinn 9 daga frí til að stilla saman strengi sína og mæta ÍA laugardaginn 2.júni sem hluti að hátíðarhöldum Sjóarans síkáta.