Íslandsmót Seniora og Juniora í júdó

Ungmennafélag Grindavíkur Judó

Björn Lúkas á verðlaunapalli

 

Laugardaginn 13. apríl fór fram Íslandsmeistaramót fullorðinna í júdó og keppti þar Sigurpáll Albertsson frá Grindavík og vann þar til bronsverðlauna.

Sigurpáll keppti í -100kg flokki og voru þar 6 keppendur sem skipt var í tvo riðla. Sigurpáll vann sína fyrstu glímu, en tapaði annarri gegn sigurvegara flokksins. Hann komst þó upp úr riðlinum og keppti undanúrslitaglímu þar sem hann var yfir á stigum þar til á lokasekúndunum, þegar andstæðingur hans kastaði honum. Hann hafnaði því í 3. sæti

 

Laugardaginn þar á eftir fór fram Íslandsmót U21 árs og kepptu þar þeir Björn Lúkas Haraldsson og Guðjón Sveinsson. Varð þar Björn Lúkas íslandsmeistari þriðja árið í röð og vann Guðjón til bronsverðlauna.

Björn Lúkas keppti í -81kg flokki 18-20 ára. Þar voru 3 í flokki og kepptu þeir allir innbyrðis. Lúkas vann fyrri glímuna sína á armlás og þá seinni á hengingu og tryggði þannig titilinn.

Guðjón keppti í -73kg flokki 18-20 ára. Þar voru 6 í flokki og var þeim skipt í tvo riðla. Guðjón vann fyrstu glímuna sína á armlás, en tapaði annarri á kasti. Hann komst þó upp úr riðlinum, en tapaði gegn sigurvegara flokksins á kasti og endaði því í 3. sæti.

 

 

Sigurpáll á palli (þriðji frá vinstri)

Sigurpáll á palli (þriðji frá vinstri)

Guðjón á palli (lengst til hægri)

Guðjón á palli (lengst til hægri)