Annar Norðurlandameistaratitill hjá Birni Lúkasi

Ungmennafélag GrindavíkurJudó

Grindvíkingurinn Björn Lúkas Haraldsson sigraði -81 kg þyngdarflokkinn í aldursflokknum U17 af miklu öryggi og varð því Norðurlandameistari annað árið í röð.

Samtals tóku Íslendingarnir á mótinu 7 gull, 2 silfur og 6 brons.  

Mótið sem haldið var í Osló er það fjölmennasta hingað til með 320 keppendum.  Þar af voru þrír frá Grindavík því auk Björns voru Guðjóns Sveinsson og Sigurpáll Albertsson.

Björn Lúkas keppti eins og áður sagði í -81 kg U17 flokki og þar voru 9 í flokkinum. Þeim var skipt í tvo riðla og vann Lúkas sinn riðil með yfirburðum. Þá var komið að úrslitaglímunni, sem hann var ekki lengi að klára á fastataki.

Guðjón keppti í -66 kg U17 flokki þar sem keppendur voru 22. Þar var útsláttur og tapaði hann því miður í fyrstu umferð gegn bronshafa flokksins.

Sigurpáll, sem venjulega keppir í -90 kg, keppti í -100 kg U20 flokki, afþví þar voru -90 kg og -100 kg flokkarnir sameinaðir vegna fárra keppenda. Í þessum sameiginlega flokki voru 9 keppendur þar sem skipt var í tvo riðla og barðist Sigurpáll vel, náði meira að segja að skella sigurvegara flokksins, en tapaði því miður sínum þrem glímum.