2 Íslandsmeistarar og glás af silfri

Ungmennafélag GrindavíkurJudó

2 Íslandsmeistaratitlar og 7 silfur á Íslandsmótinu í júdó.

Í dag 12. mars fór fram Íslandsmótið í júdó í júdósal JR. Þar kepptu 8 Grindvíkingar og komust 7 þeirra á pall. Alls fengust 7 silfur og 2 gull á mótinu.

Í 17-19 ára aldursflokki kepptu 4 drengir frá Grindavík:

Sigurpáll Albertsson sem fékk silfur í -90kg flokki.

Rúnar Örn Gunnarsson sem fékk silfur í -60kg flokki.

Daniel Víðar Hólm sem fékk silfur í -81kg flokki.

Guðmundur Ingi Hammer Kjartansson keppti í -73kg flokki en komst því miður ekki á pall.

Kepptu þeir líka í sveitaglímu (liðakeppni) allir saman og fengu einnig silfur.

Í 15-16 ára aldursflokki kepptu einnig 4 drengir:

Reynir Berg Jónsson varð Íslandsmeistari í -55kg flokki.

Björn Lúkas Haraldsson varð Íslandsmeistari í -81kg flokki.

Guðjón Sveinsson fékk silfur í -66kg flokki.

Sólon Rafnsson fékk silfur í -60kg flokki.

Þeir kepptu líka í sveitaglímu 4 saman og lentu í 2. sæti, enn eitt silfrið.

 

Sigurpáll keppti í -90kg flokki og voru 3 í flokknum. Hann vann fyrstu glímuna sína vel en tapaði þeirri seinni á lokasekúndunni eftir fjögurra mínúna glímu.

Rúnar var í -60kg flokknum og þar voru þeir þrír. Rúnar vann fyrstu glímuna örugglega með flottri hengingu en tapaði seinni glímunni þegar honum var kastað á lokasekúndunum.

Daniel keppti í -81kg flokki og var mjög léttur miðað við sinn flokk. Voru þeir 3 í flokknum og vann Daniel eina af tveim glímum.

Guðmundur keppti í -73kg, sem er mjög sterkur flokkur, þar voru 4 keppendur og tapaði Gummi öllum glímunum en stóð þó vel í öllum andstæðingum. Hann fékk svo uppreisn æru í sveitaglímunni þegar hann vann þann sem lenti í öðru sæti í flokknum.

Reynir var í -55kg og þar voru 3 keppendur. Hann vann báða keppinauta sína á flottum hengingum. Þess má geta að þetta er annað árið í röð sem Reynir landar þessum titli í þessum flokki.

Björn Lúkas keppti í -81kg og var það stærsti flokkurinn, 6 keppendur. Þeim var skipt í 2 þriggja manna riðla. Lúkas vann sinn riðil nokkuð örugglega og keppti svo hreina úrslitaglímu sem hann gerði sér litið fyrir og vann á fastataki.

Guðjón keppti í -66kg þar sem voru 4 keppendur. Hann tapaði fyrstu glímunni þannig að tíminn rann út þegar andstæðingur hans var yfir. Hann vann svo næstu tvær glímur örugglega með kasti og hengingu.

Sólon var í -60kg flokki og voru þeir aðeins tveir í flokkinum og kepptu þeir þá tvisvar. Sólon tapaði báðum glímum sem voru mjög jafnar.

Í sveitaglímu 17-19 ára kepptu þeir 4 saman og voru 3 sveitir mættar til leiks. Höfðu þeir sigur á sveit ÍR en töpuðu gegn liði JR.

Í sveitaglímu 15-16 ára kepptu yngri strákarnir 4 og voru þar 5 sveitir í keppni. Unnu þeir sveit KA og ÍR en töpuðu klaufalega gegn Selfossi. Að lokum töpuðu þeir fyrir sigursveit JR en enduðu í 2. sæti í riðlinum.