Bókaútgáfan Tindur hefur gefið út bókina Íslensk knattspyrna 2014 eftir Víði Sigurðsson en þetta er 34. árið í röð sem árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út.
Árið 2014 var einstakt í sögu íslenskrar knattspyrnu. Karlalandsliðið byrjaði frábærlega í undankeppni EM 2016 með því að sigra Tyrki, Letta og Hollendinga og komst í október í sína bestu stöðu á heimslista FIFA frá upphafi. Stjarnan varð fyrsta íslenska félagsliðið í karlaflokki til að spila í fjórum umferðum í Evrópukeppni og upplifði sannkallað ævintýri. Íslendingar áttu markakónga í Noregi og Hollandi, fyrirliða meistaraliðsins í kvennaflokki í Svíþjóð og þannig mætti lengur telja.
Stjarnan varð Íslandsmeistari karla í fyrsta skipti eftir dramatískan úrslitaleik gegn FH og Garðabæjarliðið varð tvöfaldur meistari í kvennaflokki í fyrsta skipti.
Fjallað er ítarlega um Íslandsmótið 2014 í öllum deildum og flokkum. Mest um efstu deildir karla og kvenna en einnig um neðri deildirnar og yngri flokkana. Bikarkeppni karla og kvenna er gerð ítarleg skil og fjallað um önnur mót innanlands og margt fleira sem tengist íslenskum fótbolta á árinu 2013.
Í bókinn eru viðtöl við Söru Björk Gunnarsdóttur, Ingvar Jónsson og Hörpu Þorsteinsdóttur, fjallað sérstaklega um árangur og stöðu karla- og kvennalandsliðanna, um markakónga Íslendinga erlendis, Íslendinga sem hafa spilað 100 landsleiki og margt fleira áhugavert.
Í bókinni er m.a. úttekt á stoðsendingum í efstu deildum karla og kvenna á árinu en bestu leikmenn á því sviði voru verðlaunaðir af bókaútgáfunni Tindi við útkomu bókarinnar.
Þá er í bókinni afar nákvæm tölfræði um alla leikmenn í efstu deildum karla og kvenna, liðsskipanir allra liða í öllum deildum meistaraflokks koma fram ásamt leikja- og markafjölda, öll úrslit og lokastöður í öllum yngri flokkum á Íslandsmótinu. Þar má finna hverjir hafa spilað mest og skorað mest í öllum deildum, hvaða íslensku knattspyrnumenn hafa spilað flesta leiki á ferlinum, hvaða Íslendingar hafa spilað í Meistaradeild Evrópu, og ótalmargt fleira.
Bókin er 256 blaðsíður og þetta er í annað skipti sem hún er öll litprentuð. Hún er prýdd um 370 myndum, m.a. liðsmyndum af sigurvegurum í öllum deildum og flokkum á Íslandsmótinu, ásamt mörgum fleiri liðum og einstaklingum.