Grindavík tekur á móti Víking frá Ólafsvík í kvöld klukkan 20:00.
Það er orðið kærkomið að sjá leik með strákunum því Grindavík hefur aðeins spilað tvo leiki í deildinni, tap gegn Leikni í fyrstu umferð og sigur á skagamönnum í annari umferð.
Víkingur hefur spilað þrjá leiki þar sem þeir hafa unnið tvo og tapað einum. Ólafsvíkingar eru með sterkt lið sem féll úr Pepsi deild í fyrra og verður því þetta áhugaverður leikur í kvöld.
Matthías og Andri urðu fyrir hnjaski í bikarleiknum gegn Víking Reykjavík og óvíst hvort báðir verði tiltækir í kvöld. Daníel Leó er kominn frá Írlandi þar sem hann spilaði með U-19 á dögunum og var í byrjunarliðinu í öllum leikjum.
Jankó var í viðtali hjá Víkurfréttum þar sem þetta kom fram:
“Milan Stefan Jankovic þjálfari Grindvíkinga í 1. deild karla í knattspyrnu er bjartsýnn að eðilsfari. Hann segir að Grindvíkingar stefni hraðbyri að því að næla sér í sæti í Pepsi-deildinni, en þeir voru grátlega nærri því í fyrra. Deildin er farin af stað og hafa Grindvíkingar leikið tvo leiki þar sem unnist hefur einn sigur og tapast einn leikur. Margir uppaldir Grindvíkingar leika lykilhlutverk hjá liðinu og virðist stemningin eftir því.
„Við erum ánægðir með stemninguna í hópnum. Við erum mjög bjartsýnir og það er gaman í klefanum sem og á æfingum,” segir þjálfarinn léttur í bragði. Grindvíkingar náðu að halda flestum sínum sterkustu leikmönnum þrátt fyrir að ýmis félög í úrvalsdeild hafi sjálfsagt viljað njóta þjónustu þeirra. Jósef Kristinn Jósefsson er kominn á fullt skrið eftir að hafa glímt við meiðsli í fyrra, markvörðurinn Óskar Pétursson er áfram hjá liðinu og sömuleiðis hinn efnilegi Daníel Leó Grétarsson. „Hann lék vel í fyrra og mun fá að sanna sig betur í sumar. Hann er fastamaður hjá okkur og einnig í U19 landsliði Íslands,” en Daníel hefur verið valinn í liðið sem leikur í milliriðli í Evrópukeppni um mánaðamótin. „Strákurinn á skilið að spila með landsliðinu. Það er númer eitt að hann fái að spila þessa leiki sem fulltrúi Grindavíkur. Að mínu mati gengur landsliðið fyrir enda mikill heiður að spila fyrir sína þjóð,” segir þjálfarinn sem jafnan er kallaður Janko.
Því miður virðist sem Grindvíkingar njóti ekki krafta hins öfluga leikmanns, Alexanders Magnússonar, en hann hefur átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarin tvö ár. „Hann hefur verið að koma á æfingu stöku sinnum en þetta er virkilega leiðinlegt með meiðsli hans. Vonandi getur hann spilað í sumar en þetta verður erfitt. Þarna erum við að tala um einn besta leikmann á Íslandi, ekki bara hjá okkur. Hann er líka frábær karakter og því er þetta mikill missir.”
Í fyrra voru Grindvíkingar ansi nálægt því að vinna sér sæti í úrvalsdeild. Liðið var lengst af á toppi deildarinnar og aðeins munaði markatölu að liðið færi upp um deild. Janko segir að markmiðið í ár sé svo sannarlega að vinna sér sæti í deild þeirra bestu. „Við erum með mannskap til þess að berjast á toppnum. Ég tel að það séu sex lið sem muni vera í baráttunni enda er þetta jöfn deild. Allir geta unnið alla og hver einasti leikur er nánast eins og úrslitaleikur.”
Næsti leikur Grindvíkinga er gegn Víkingum Ó. á heimavelli í kvöld fimmtudag, kl. 20:00.
“