Einvígið jafnað

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Staðan í einvígi Grindavíkur og KR um Íslandsmeistaratitilinn er 1-1 eftir frækinn sigur hjá Grindavík í gær 79-76.  Leikurinn skiptist í tvo hluta, frekar lélegar 33 mínútur og svo 7 frábærar mínútur.  Þessar 7 mínútur dugðu og er byrinn núna með okkar mönnum.

Liðin þekkja hvorn annan allt of vel þannig að varnir beggja liða náðu að stoppa flæðið í sóknarleik andstæðingsins.  Verður leikurinn þess vegna ekkert sérstakur á að horfa.  Mikil barátta einkenndu liðin enda ekki á öðru von þegar sjálfur Íslandsmeistarabikarinn í húfi.  

Grindavík byrjaði að komast yfir í 2-0.  Gestirnir tóku þó fljótlega yfirhöndina og voru með þessi 12-5 stig lengstum leiks, alveg sama handritið og í fyrsta leiknum.  Það stefndi því allt í fyrirsögnin “tapaðir boltar og tapað tækifæri” en þessi íþrótt er svo skemmtileg á þann veg að hún er stútfull af “turning point” eins og kaninn segir.  Einn ristastór vendipunktur var í leiknum í gær þegar Daníel átti frábæran þrist og Pavel braut á honum um leið.  Pavel fór út af með 5 villur og Daníel skoraði úr vítaskotinu og minnkaði muninn í 4 stig.  

Var þetta minnsti munur á liðunum lengi og með því vöknuðu stuðningsmenn Grindavíkur og settust ekki niður það sem eftir lifði leiks.  Frábær stuðningur úr stúkunni er bensín á menn eins og Ólaf Ólafsson sem bætti við stórum þristum og allt liðið stórbætti leik sinn.  

Grindavík fór því með sigur í leiknum 79-76.

Einn maður stóð upp úr í gær.  Ómar Örn Sævarsson átti sennilega sinn besta leik á ferlinum með 26 stig, 11 fráköst og hélt okkur inn í leiknum mest allan leikinn.

Næsti leikur er í Reykjavík á mánudaginn klukkan 19:15 sem mun enda vel ef allir leikmenn og stuðningsmenn mæta fullir sjálfstraust í slaginn.