Grindavík 89 – Njarðvík 73

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík er komið með yfirhöndina í einvígi Grindavíkur og Njarðvík í 4 liða úrslitum Dominosdeild karla.  Liðið er því einum sigri frá því að komast í úrslitaviðureignina þriðja árið í röð.

Lokatölur voru 89-73 þar sem Grindvík var megin hluta af leiknum með þægilegt 8-12 stiga forskot.

Staðan í hálfleik var 43-35 sem var einkennilegt því maður hafði á tilfinningunni að meiri stigamunur væri á liðunum því Grindavík var að spila mjög vel sem lið í fyrri hálfleiknum og reyndar öllum leiknum.  En munurinn var 8 stig því gestirnir voru drjúgir að lauma inn stigum.  

Annað sem “gaman” var að sjá í hálfleik að erlendu leikmennirnir voru samtals með 7 stig eftir fyrstu tvo leikhlutana og þar af var Lewis Clinch með 5 stig.  Bæði lið hafa nefnilega í sínum röðum marga mjög góða Íslendinga sem stjórnuðu ferðinni.  Lewis Clinch vaknaði reyndar í seinni hálfleik og endaði leikinn með 23 stig.

Seinni hálfleikurinn var líkur þeim fyrri, okkar menn betri en náðu aldrei að stinga af.

Eins og Jóhann Árni sagði eftir leikinn þá eru margir leikmenn í Grindavíkurliðinu sem geta stígið upp og maður veit aldrei fyrir leikinn hver verður stigahæstur. Í gær var það Jóhann sem skoraði 26 stig enda var hann að hitta vel.

Til að toppa leikinn þá skoraði hinn 15 ára Ingvi Þór Guðmundsson síðustu stigin með þriggja stiga skoti, bekkurinn okkar er nefnilega skipaður mörgum mjög efnilegum leikmönnum sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Viðtal við Jóhann Árna Ólafsson á karfan.is

Umfjöllun á visir.is