Davor Suker forseti knattspyrnusambands Króatíu heimsótti Grindavík í gær í fylgd góðvinar síns Milans Stefáns Jankovic þjálfara Grindavíkur en þeir spiluðu saman í fjögur ár með Osijek á sínum tíma í Júgóslavínu og þeir hafa haldið sambandi síðan þá. Suker var einn fremsti knattspyrnumaður Króata á sínum tíma en hann varð markakóngur á HM 1998. Suker er að sjálfsögðu staddur hér á landi vegna stórleiks Íslands og Króatíu í dag.
Suker heilsaði upp á stórn knattspyrnudeildar UMFG og skoðaði íþróttamannvirkin og heilsaði upp á iðkendur yngri flokkanna. Hann skellti sér m.a. á vítapunktinn og rifjaði upp gamla takta með sínum frábæra vinstri fæti. Suker var afar hrifinn af knattspyrnuhúsinu. Suker kom færandi hendi en hann gaf bolta frá króatíska knattspyrnusambandiniu fyrir yngri flokkana. Hann var svo leystur út með gjöfum, m.a. lýsi og saltfiski.
Milan Stefán er frá Króatíu en hann er með íslenskan ríkisborgararétt og mun styðja Ísland í umspilsleikjunum.
Efsta mynd: Suker ásamt stjórn knattspyrnudeildar UMFG og áhugasömum yngri leikmönnum.
Félagarnir Milan Stefán Jankovic og Davor Suker í góðum félagsskap iðkenda í yngri flokkunum og Jónasi Þórhallssyni formanni knattspyrnudeildar.