Enn þéttist toppbaráttan

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindavík tapaði stórt fyrir Fjölni í 20. umferð 1.deild karla. Lokatölur voru 4-0 fyrir gestina.

Fjölnir átti sigurinn skilið því allar aðgerðir þeirra voru markvissari.  Okkar menn voru meira með boltann en náðu ekki að skapa sér nógu góð færi.  

Ekki nóg með að Grindavík tapaði þarna dýrmætum stigum í baráttunni um Pepsideildarsæti þá gerðu þessi fjögur mörk markatöluhagnaðinn að engu.  Grindavík er bæði jafnt Haukum og Víkingum að stigum og markatölu.  Haukar og Víkingar eiga bæði eftir að spila við Völsung sem hafa fengið 62 mörk á sig.

Tvær umferðir eru eftir.  Grindavík á útileik gegn KF í næstu umferð.  KF á ennþá möguleika að halda sér uppi og verður þetta því mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið.   Þrjú stigin sem verða í boði þar eru líklega stigin sem skilja að hvort Grindavík spilar meðal bestu liða í Pepsi deild næsta vor eða á sama stað.

Lokaleikurinn er svo við KA á heimavelli og Grindavík þarf einnig öll stigin sem verða í boði þar.

Leikmenn munu eflaust eiga erfitt með að sofna eftir þennan leik en þurfa svo að rífa sig upp strax á morgun.  Þetta er vel mögulegt og  Grindvíkingar munu eflaust fjölmenna norður á Ólafsfjörð um helgina og styðja við bakið á strákunum, margir eiga nú einmitt góðar minningar frá Ólafsfjarðarvelli.