Grindavík tryggði sér tveggja stiga forystu í 1.deild karla með 2-1 sigri á Þrótti í gær. Mörk Grindavíkur skoruðu heimamennirnir Óli Baldur Bjarnason og Daníel Leó Grétarsson.
Þróttur hafði fyrir leikinn verið á ágætis siglingu eftir að þeir skiptu um þjálfara. Baráttan um sæti í efstu deild orðin hörð og því nauðsynlegt fyrir Grindavík að ná þremur stigum í gær.
Gestirnir vörðust vel framan af leik, sátu þétt aftur og erfitt að brjóta vegginn. Grindavík komst þó í nokkur ágæt færi en inn vildi boltinn ekki.
Á 41. mínútu skölluðu Þróttarar í slá og Andri Björn Sigurðsson var fyrstu til að ná til boltans eftir það og kom boltanum í netið. 1-0 í hálfleik sem var gegn gangi leiksins.
Það kom nokkuð á óvart að Þróttarar færðu sig aðeins framar á völlinn í seinni hálfleik þó að þeir kæmu inn í seinni hálfleikinn einu marki yfir. Það virtist hinsvegar virka því þeir áttu skot í slánna fljótlega.
Grindvíkingar áttu hinsvegar næsta mark. Þá átti Jóhann Helgason skot í slánna á 51. mínútu og náði Óli Baldur frákastinu og þrumaði boltanum í markið, 1-1.
Strax tveimur mínútum seinna kom Daníel Leó Grétarsson okkar mönnum yfir eftir að Trausti Sigurbjörnsson varði stórglæsilega skot frá Juraj Grizelj og Daníel Leó fylgdi eftir.
Eftir það hægðist á leiknum og voru lokamínúturnar lengi að líða.
Maður hefur oft séð Grindavíkurliðið spila betur og vantaði smá neista í liðið en liðið tryggði sér öll stigin með baráttu og er það gott veganesti inn í Leiknisleikinn sem fer fram næsta laugardag.
Alen Sutej spilaði ekki með Grindavíkurliðinu í gær og fór hinn hafsentinn, Markó Valdimar Stefánsson, út af í hálfleik. Daníel Leó og Matthías Örn Friðriksson stóðu sig hinsvegar vel í öftustu röð í þeirra stað.
Staðan eftir 17 umferðir er því svona:
Grindavík | 33 stig |
Haukar | 31 stig |
Fjölnir | 31 stig |
Víkingur | 30 stig |
Leiknir | 28 stig |
BÍ/Bolungarvík | 27 stig |