Grindavík missti af stigi undir lok leiks þegar Keflavík tryggði sér sigurinn á 88. mínútu í þrettándu umferð Pepsi deild karla í kvöld.
Bæði Ólafur Örn og Alexander voru fjarverandi í kvöld ásamt því að Pape og Ameobi voru á bekknum. Byrjunarliðið var þannig skipað:
Óskar, Eklund, Ondo, Björn Berg, Ray, Matthías, Hafþór, Markó, Scotty, Magnús og Iain Williamson í sínum fyrsta leik með Grindavík.
Það lá á okkar mönnum fyrsta hálftímann en heimamönnum tókst ekki að koma boltanum inn fyrir línuna, munaði þar mestu um ágætan leik Óskars í markinu. Þegar leikmenn Grindavíkur fóru að hafa meiri trú á þessu og náðu að senda boltann oftar en 3 á milli manna þá kom auka kraftur sem skapaði fín færi, Scotty átti skot í stöng og Magnús klúðraði upplögðu tækifæri.
0-0 í hálfleik en mörkin áttu eftir að vera 3 í seinni hálfleik. Fyrsta markið kom á 60. mínútu frá Sigurbergi eftir hraða skyndisókn.
Pape kom inn 5 mínútum seinna og kom aftur með þennan aukakraft sem liðið fann í fyrri hálfleik. Á 72 mínútu var brotið á honum og flestir leikmenn og áhorfendur sáu fram á rautt spjald í kjölfarið. Þorvalduru Árnason sá hinsvegar ekkert athugavert við brotið en Pape skoraði tveimur mínútum seinna með skalla eftir frábæra sendingu frá Magnúsi.
Allt stefndi í 1-1 jafntefli þangað til Keflvíkingar náðu í öll stigin með marki á 88. mínútu.
Næstu tveir leikir eru mikilvægustu leikir tímabilsins til þessa, fyrst er það undanúrslit gegn KR í bikarnum á fimmtudaginn en svo er það leikur sem er e.t.v. mikilvægari: Fram á heimavelli 8. ágúst.
Myndin hér að ofan er af marki Pape sem Eyþór Sæmundsson tók fyrir vf.is