Gunnar búinn að skrifa undir við Ipswich

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Grindvíkingurinn Gunnar Þorsteinsson hélt til Ipswich í Englandi í vikunni þar sem hann skrifaði undir tveggja ára samning við þetta fornfræga enska félag, í framhaldi af því að Grindavík og Ipswich gengu einnig frá samkomulagi.

 

Gunnar sem er 17 ára miðjumaður, hóf svo æfingar með unglingaliði Ipswich á miðvikudaginn þegar undirbúningstímabilið hófst hjá félaginu og eru því spennandi tímar framundan hjá honum. Gunnar á 5 landsleiki að baki með U17 ára landsliði Íslands þar sem hann var fyrirliði á Norðurlandamótinu í fyrra og tvo leiki fyrir meistaraflokk Grindavíkur en hann er yngsti meistaraflokksmaðurinn í sögu félagsins.

Grindavík og Ipswich Town munu jafnframt taka upp náið samstarf hvað varðar ýmsa þætti eins og t.d. þjálfara og leikmenn og þá munu þjálfarar frá Ipswich koma til Grindavíkur næsta sumar og halda hér knattspyrnuskóla.

,,Það er gleðiefni fyrir knattspyrnuna í Grindavík að barna- og unglingastarf félagsins skuli vera svo öflugt að á þessu eina ári hafa farið tveir leikmenn sem hafa alist upp hjá félaginu í atvinnumennsku. Á síðustu árum hefur knattspyrnudeild Grindavík lagt ríka áherslu á uppbyggingastarf innan félagsins og ráðið til sín þjálfara í yngri flokkunum í fremstu röð og ljóst að þetta er að skila sér. Grindavík hefur átt landsliðsfólk í yngri landsliðum Íslands, drengja og stúlkna og fleiri banka þar á dyrnar,” segir Eiríkur Leifsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Foreldrar Gunnars fóru með honum út til Ipswich Town í vikunni til þess að ganga frá samningum og fengu þau góðar móttökur.

,,Framtíðin er björt hjá Grindavík, það eru margir efnilegir leikmenn að koma upp hjá okkur. Við viljum þakka Gunnari fyrir gott samstarf en hann er fyrirmyndar íþróttamaður, innan vallar sem utan og hefur lagt mikið á sig við æfingar í gegnum tíðina. Við óskum honum velfarnaðar hjá Ipswich og að sjálfsögðu er hann alltaf velkominn heim aftur í sitt uppeldisfélag,” sagði Eiríkur að lokum.