Stjórn knattspyrnudeildar verður með stórmót í knattspyrnu í tengslum við Sjóarann síkáta fyrir fyrrverandi leikmenn, stuðningsmenn, þjálfara, stuðningsmenn og stjórnarmenn.
Nú þegar hafa um 80 leikmenn skráð sig en stefnan er sett á 100 manns.
Mótið verður á fimmtudeginum (uppstigningardag) 2. júní frá kl. 16-18 á aðalvelli deildarinnar. Hlé verður gert á milli kl. 18:00 19:30 fyrir menn til að fara í sturtu og heita potta og undirbúa sig fyrir skemmtidagskrá um kvöldið,sem haldin verður í tjaldi við Gula húsið og verður með skemmtilegu söngívafi (Bakkalábandið, Stigamenn, Árni Johnsen) og verðlaunaafhendingu.
Keppendur mæta kl. 15:00 í Gulahús og taka við búning og greiða þáttökugjaldið. Keppni byrjar stundvíslega kl. 16:10 eftir stutta kynningu.
Liðin munu ganga inná völlinn undir lagi Ómars Ragnarssonar „hann er þekkur fyrir sín þrumu skot”
Liðin munu keppa undir nöfnum gömlu hverfanna, Þorkettlingar (Þorkötlustaðahverfi) og Járngerðingar (Járngerðarstaðahverfi) Litir búninga er gulur og blár.
Síðan er samanlögð stigasöfnun sem ræður hvort hverfið sigrar. Glæsileg verðlaun gefur Sigurður Pétursson eigandi ÍS-spor m.a. fær elsti þátttakandinn sérstök verðlaun.
UEFA-dómararnir Magnús Þórisson og Eyjólfur Ólafsson sjá um dómgæslu.
Ókeypis er í stúkuna
Í undirbúningsnefndinni eru Jónas Þórhallsson, Bjarni Ólasson (Bíbbinn) framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar, Eiríkur Leifsson.
Aðaltilgangur Bacalao mótsins er að vekja athygli, byggja upp sjóð til styrktar grindvískri knattspyrnu og hittast og eiga góða stund saman.
Búið er að skrá niður fyrrverandi leikmenn, þjálfara , stjórnarmenn og stuðningsmenn og eru þetta um 200 manns. Búið er að safna saman netföngum hjá þeim flestum. Þegar hringt var út að ná í netföngin fór mikill en skemmtilegur tími í að rifja upp gömul prakkarastrik og ýmis skemmtilegt úr boltanum í gamla daga. Við fundum það í fyrra þegar við minntumst þess að 41 ár eru liðum frá því Grindavík tók fyrst þátt í Íslandsmóti hversu gaman var að koma saman og rifja upp gamla tíma.
Spilað verður í þremur aldursskiptum deildum, 30 – 40 ára, 40 – 50 ára og betri deild er fyrir leikmenn 50 ára og eldri.
Við vonumst eftir því að sjá ykkur öll fimmtudaginn 2. júní. Þátttökugjald er 5.000 kr. og innifalið í því er knattspyrnumótið, treyja og saltfiskveisla um kvöldið. Makar eru velkomnir í veisluna (og að fylgjast með mótinu) og er verð fyrir þá 2.500 kr. Allir drykkir verða seldir á staðnum.
Til þess að fá menn til að mæta þá segjum við að getuleysið er fyrirgefið en viljaleysið ekki. Bara mæta og fara í búning, þó menn standi aðeins á hliðarlínunni þá er það fullgilt. Grasrótin hjá Grindavík fær að njóta ágóðans og við sem tökum þátt fáum ómælda gleði.
Nauðsynlegar upplýsingar við skráningu:
Nafn:
Fæðingarár:
Heimilisfang:
Símanúmer:
Netfang:
Stærð á treyju:
Fótbolti:
Vítakeppni:
Maki kemur í veislu: Já/Nei
Skráning er hafin á umfg@centrum.is, nánari upplýsingar veitir Jónas í síma 691-4030 og Eiríkur í síma 863-2040 og Bjarni Ólason (Bíbbinn) 661-8617.
Reglur mótssins:
1. Bacalao er fyrir knattspyrnumenn sem tengjast Grindavík 30 ára og eldri. Verði menn þrítugir á árinu teljast þeir gjaldgengir.
2. Knattspyrnumaður” tengdur Grindavík er sá sem með einhverjum hætti hefur tengst knattspyrnu í Grindavík. Þ.e. stuðningsmenn, leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og svo framvegis.
3. Þátttakendur skulu skrá sig hjá undirbúningsnefnd og verða gjaldgengir eftir að hafa innt af hendi mótsgjald. Mótstjórn raðar þátttakendum í lið og skal við það taka mið af aldri og getu leikmanna, þannig að sem jafnast verði í liðum. Mótstjórn gefur liðum nafn. Mótsgjald 2011 er 5.000 kr og skal greitt inn á reikning nr: 0143-26-005177 kt 581090-2349. Muna skal að setja nafn og kennitölu í skýringu við greiðslu. Einnig er hægt að greiða á mótsstað.
4. Mótið er tvískipt þar sem annarsvegar er spilaður minnibolti og hinsvegar vítakeppni fyrir þá sem ekki treysta sér í minnibolta.Spilað verður í þremur aldursskiptum deildum, 30 – 40 ára, 40 – 50 ára og betri deild fyrir leikmenn 50 ára og eldri. Spilaður er sjö manna bolti með einum markverði og sex útileikmönnum. Hvert lið skal skipað að minnsta kosti 8 leikmönnum, s.s. einn markvörður og sex útileikmenn. Fjöldi þátttakenda í hverjum aldurshópi skal vera sem jafnastur. Hvert lið skal hafa liðstjóra og vatnsbera, það eru tilvalin hlutverk fyrir þá sem ekki treysta sér lengra en að hliðarlínu en er skilt að vera í keppnistreyju.
5. Í vítaspyrnukeppni keppa þeir einstaklingar sem ekki treysta sér í minnibolta ,spyrnt verður þar til einn stendur eftir sem vítakóngur og hlýtur sá farandbikar og eignabikar.
6. Leiktíminn er 2 x 6 mínútur. Leikið er á minnivöllum.
7. Mótsstjórn skal ákveða fyrirkomulag á keppni hverju sinni og skal hún hafa hliðsjón af þátttöku við þá ákvörðun. Reikna skal þó með að allir leiki við alla í hverri deild . Til að auka stemmningu meðal bæjarbúa skulu treyjulitir verða þeir sömu og eru notaðir til að hverfaskipta Grindavík á Sjóaranum Síkáta, þ.e. Rauður, Grænn, Blár og Gulur.
8. Ef lið eru jöfn að stigum gilda reglur KSÍ um röð liða.
9. Sérstaklega skal tekið fram að sömu reglur gilda um sendingar til markvarðar og gilda í deildarkeppnum á vegum KSÍ.
10. Leikið verður í Hópinu.(Fjölnotahúsinu)
11. Ekki er heimilt að spila á grasskóm í keppninni.
12. Í staðin fyrir rautt spjald þá gefum við blátt spjald fyrir grófar tæklingar, ljótt orðbragð eða slæma framkomu og fær viðkomandi þá 2 mínútna brottvísun. Viðkomandi er sem sagt rekinn út af í 2 mínútur til að kæla sig niður, en annar liðsfélagi má koma strax inná og síðan getur viðkomandi komið aftur inn á eftir það.
13. Allir leikir skulu fara fram skv. knattspyrnulögum KSÍ og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, nema annars sé getið í reglum þessum.
14. Yfirskrift mótsins er HÁTTVÍSI, PRÚÐMENNSKA OG SAMBABOLTI. Leikmenn skulu leitast við að forðast allt það háttalag sem getur stefnt líkamlegri og andlegri heilsu andstæðinga og samherja í hættu, leikmenn skulu umsvifalaust viðurkenna fyrir dómara hafi þeir gerst brotlegir við knattspyrnulög og leikmenn skulu draga fram alla þá kunnáttu í knattleikni sem þeir hafa viðað að sér á ferlinum til þess að skemmta áhorfendum hið mesta.
Þeir sem koma með því hugarfari að tækla allt sem hreyfist verða útilokaðir frá keppni næstu 10 ár en hafa mætingarskyldu og verða skráðir í sjósund á meðan bannið er í gildi.
Í stuttu máli er sem sagt bannað að tækla og brúka munn.