Góður sigur í Borganesi

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík sótti öll stigin til Borganes í gær þegar þeir mættu Skallagrím í elleftu umferð Dominosdeild karla.  Leikurinn var mjög kaflaskiptur því Grindavík var 18 stigum undir í hálfleik en komu sterkir til baka í seinni hálfleik og unnu hann með 30 stiga mun og lokatölur 75-83.

Hér fyrir neðan er umfjöllun karfan.is frá leiknum:

Eftir stórfurðulega viku hjá körfuknattleiksdeild Skallagríms voru Borgnesingar og nærsveitungar spenntir að sjá hvort undarlegar ákvarðanir síðustu daga myndu blása lífi í leikmenn þegar Grindvíkingar komu í heimsókn. Borgnesingar verið í bölvuðu basli á flestum vígstöðum meðan allt virðist leika í lyndi suður með sjó. Undirrituðum verður ekki oft orða vant, en að leik loknum í kvöld sat ég uppi orðlaus, þvílíkar voru sveiflurnar í leiknum.

 
 
Grétar Erlendsson sat í hvunndagsklæðum utan vallar sökum meiðsla, en það virtist ekkert hrjá Borgnesinga í byrjun. Þeir hófu leikhlutann af miklum fítonskrafti og skoruðu fyrstu 11 stig leiksins. Varnarleikur og baráttuhugur heimamanna virtist slá gestina útaf laginu í byrjun. Þeir komust þó innì leikinn með mikilli elju og að 1.leikhluta loknum var staðan 19-15 heimamönnum í hag.
 
Skallarnir byrjuðu 2.leikhluta af álíka krafti og þann fyrsta og komust fljótlega í 10 stiga forskot á ný. Varnarleikur Skallagríms var á köflum magnaður. Leikmenn rifu niður sóknarfráköst, fiskuðu ruðninga, hittu vel og börðu sér á brjóst. Á meðan gestirnir voru heillum horfnir og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Staðan í hálfleik ótrúleg 50-32. Páll Axel var atkvæðamestur hjá Sköllum í fyrrir hálfleik með 13 stig og Oscar Bellfield með 11. Hjá gestunum var Sigurður Þorsteinsson stigahæstur með 9 stig þrátt fyrir að eiga erfitt uppdráttar gegn vörn heimamanna
 
Þriðji leikhluti hefur reynst Skallagrímsliðinu afar erfiður í vetur og á því varð eigi breyting í kvöld. Grindvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur og skoruðu fyrstu 7 stig leikhlutans. Þá stigu heimamenn aftur á bensíngjöfina og bættu ráð sitt. Þegar 4,22 mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta var staðan 61-43 heimamönnum í vil (þetta er ekki prentvilla!) Þá tók við ótrúlegur kafli þar sem gestirnir skoruðu 17-0 og unnu leikhlutann samtals 26-11. Allt annað var að sjá til gestanna sem náðu loks upp sterkum varnarleik og í kjölfarið fylgdu hraðaupphlaup og opin skot. Það sama var uppi á teningnum í 4.leikhluta. Ráðleysið og einbeitingaskorturinn skein af heimamönnum sem fengu ekki rönd við reist þegar gestirnir komust í fyrsta sinn yfir í leiknum þegar 6,47 mínútur voru eftir. Segja má að Skallarnir hafi ekki séð til sólar eftir það og Grindvíkingar juku forskotið hægt og örugglega til loka leiks. Lokatölur 73-85.
 
Grindvíkingum ber að hrósa fyrir leik sinn í seinni hálfleik hvar þeir sýndu mátt sinn og megin. Feykilega sterkt að koma svona til baka og vinna sigur eftir að hafa mest verið 18 stigum undir um miðjan 3. leikhluta. Leikmenn og allir sem koma að Skallagrímsliðinu þurfa hinsvegar að hugsa sinn gang og reyna með einhverju móti að koma liðinu á réttan kjöl á komandi ári. Að sitja í fallsæti yfir jólin hlýtur að vera langt undir væntingum.
 
Earnest Lewis Clinch var stigahæstur í liði Grindavíkur með 20 stig og Jóhann Àrni gerði 15 í annars jöfnu liði þar sem allir lögðu sitt í púkkið til að landa sigri.
Hjá Skallagrími var Egill atkvæðamestur með 19 stig og Páll Axel gerði 17.
 
Oscar Bellfield gerði 11 stig, öll í fyrri hálfleik, gaf 2 stoðsendingar og tapaði boltanum 5 sinnum. Sannarlega döpur frammistaða hjá leikmanni sem var á mála hjá New York Knicks fyrir rúmu ári síðan. Það er allavega morgunljóst að pilturinn sá verður seint tilnefndur til sjálfs sìns fyrir leik í aðalhlutverki”

Mynd hér tók Ómar Örn Ragnarsso fyrir karfan.is