Grindavík tók á móti KR í fyrsta leik Dominos deild karla í gær. Mættust þarna ríkjandi Íslandsmeistarar og það lið sem er spáð að taki við titlinum.
Eftir nokkuð spennandi leik fram að fjórða leikhluta tóku gestirnir yfirhöndina í síðasta fjórðung og unnu 94-74.
Grindavík byrjaði leikinn betur og voru komnir með 6 stiga forskot um miðjan fyrsta leikhluta. KR jöfnuðu og komust yfir fljótlega eftir það og héldu nokkra stiga bili næstu tvo leikhluta. Okkar menn voru nálægt því að jafna snemma í fjórða leikhluta en þá tóku KR-ingar við sér aftur og unnu örugglega 94-74.
Mikið var um einstaklingsframtök í leiknum og ekki nægilegt flæði í spilinu. Vörnin var sömuleiðis ekki upp á marga fiska því alltof oft fengu KR-ingar að komast auðveldlega upp að körfunni, betur tókst að stoppa bakverði gestanna sem er jákvæður punktur. Aðriri jákvæðir punktar voru bræðurnir Þorleifur og Ólafur Ólafssynir sem voru bestu menn liðsins í gær. Hilmir Kristjánsson átti einnig góða innkomu þar sem hann var með 100% nýtingu utan að velli (2 þriggja stiga og 2 tveggja stiga).
Það býr miklu meira í liðinu en það sýndi í gær. Strákarnir munu hrista þetta af sér og lykilmenn í vetur eins og Jón Axel og Kendall Timmons munu vonandi læra af þessum leik og koma tvíefldir í leikinn gegn Haukum 18.október
Myndasafn karfan.is frá leiknum þar sem myndin hér að ofan er fengin.