Það var boðið upp á magnaða spennu í gærkveldi þegar Haukar og Grindavík mættust í Dominosdeild kvenna.
Leikurinn var í járnum frá upphafsmínútum og fram í aðra framlengingu. Liðin skiptust á að taka forystu en hún var aldrei nema 2-4 stig fyrir utan nokkrar mínútur í öðrum leikhluta.
Á síðustu mínútum venjulegs leiktíma voru setta niður dýrmætar þriggja stiga körfur. Fyrst komust Haukar yfir 66-63 þegar um 20 sekúndur voru eftir. Crystal Smith svaraði í sömu mynt og því jafnt þegar nokkrar sekúndur voru eftir, Crystal stal svo boltanum en náði ekki að skora áður en flautan gall.
Fyrri framlengingin var sömuleiðis jöfn sem endaði með því að Jeanne Sicat jafnaði með vítaskoti og því þurfti að framlengja aftur. Haukar voru sterkari í seinni framlengingunni og sigruðu því 93-83.