Þeir voru eflaust fáir sem áttu von á spennandi leik í kvöld á milli Grindavíkur og Fjölnis, eftir bakstur Grindvíkinga á Fjölnismönnum í Dominos-deildinni á fimmtudagskvöldið en Fjölnismenn voru ekki á þeim buxunum að láta valta yfir sig og voru ansi nálægt því að hirða farseðilinn í 8-liða úrslit Powerade-bikarsins.
Skemmst er frá því að segja að leikurinn var í járnum nánast allan tímann en í 3.leikhluta voru Grindvíkingar komnir í 10+ forystu en Fjölnismenn bitu frá sér í lokin og komust 1 stigi yfir þegar innan við mínúta var eftir en þá kom besti maður vallarins, Aaron Broussard með risaþrist sem fleytti okkur langt. Fjölnir var 4 stigum undir þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks og fóru á línuna, settu annað vítið niður og brenndu viljandi af því seinna og gerðu það vel því þeir náðu sóknarfrákastinu og voru nálægt því að jafna leikinn. Við sluppum sem sagt þarna fyrir horn.
Kannski þurfti þessi leikur ekkert að koma svo á óvart en oft höfum við orðið vitni að því að lið skipta á milli sín leikjum þegar þau mætast 2x í röð. Og eftir upprúllun okkar þá kemur kannski værukærð í okkar menn á meðan andstæðingurinn mætir með blod pa tönnen…..
Dregið verður í vikunni og verður spennandi að sjá hvern við fáum en 8-liða úrslitin fara fram í byrjun janúar.
Þetta var síðasti leikur fyrir jólafrí.
Í lokin vil ég fyrir hönd stjórnar körfuknattleiksdeildarinnar, þakka kærlega fyrir góð viðbrögð ykkar við bílabóninu okkar um helgina en maður er nánast búinn að vera með ofbirtu í augunum á því að horfa á alla þessa glæsivagna stífbónaða 🙂
Auk þess viljum við þakka leikmönnum kærlega fyrir þeirra þátt í bóninu, það sannast þarna að margar hendur vinna létt verk.
Áfram Grindavík!