Stelpurnar mættu Haukum í gær í 14. umferð Dominosdeild kvenna.
Grindavík var búið að vera á ágætri siglingu í síðustu leikjum en mættu í gær sterku liði heimastúlkna. Leikurinn endaði 73-64 fyrir Hauka.
Hér fyrir neðan er umfjöllun karfan.is af leiknum:
Haukar tóku á móti Grindavík í Schenkerhöllinni í 14. umferð Dominosdeildar kvenna, seinustu umferð fyrir jólafrí. Grindavík fékk enga jólagjöf frá gestgjöfunum að þessu sinni þar sem Haukar unnu 73-64. Dagbjört Samúelsdóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir voru óstöðvandi í sitt hvorum leikhlutanum í seinni hálfleik ásamt því að Siarre Evans var með svakalega 15-20-10 þrennu í leiknum. Hjá gestunum fór Crystal Smith fyrir sínu liði með 32 stig sem dugði þó ekki til.
Byrjunarlið Hauka: Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Dagbjört Samúelsdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Siarre Evans.
Byrjunarlið Grindavíkur: Crystal Smith, Helga Rut Hallgrímsdóttir, Harpa Rakel Hallgrímsdóttir, Petrúnella Skúladóttir og Berglind Anna Magnúsdóttir.
Fyrsti leikhlutinn var fremur tíðindarlítill og mikið af mistökum hjá báðum liðum. Illa gekk að koma boltanum ofan í hringinn sem ýmist rúllaði af hringnum eða skoppaði af spjaldinu. Staðan því einungis 11-7 að loknum tíu mínútum.
Haukar byrjuðu annan leikhlutann betur og komust í 18-11 eftir fjögurra mínútna leik en þá tók Grindavík við sér og átti 10-0 kafla þar sem að Crystal Smith var með átta stig og þar af tvo þrista. Eftir það hrundi hinsvegar leikur Grindavíkur og Haukar yfirspiluðu þær 13-2 það sem eftir var fyrri hálfleiks. Grindavík átti aðeins fjögur skot á þeim kafla og nýtti einungis eitt þeirra. Á meðan áttu Haukar ellefu skot en nýttu þó bara fjögur þeirra en tóku hins vegar 4 sóknarfráköst og héldu boltanum í 44 sek. í einni sókninni. Staðan því 31-23 í hálfleik. Crystal Smith var sú eina sem var mætt í leikinn hjá Grindavík og var með 18 stig í hálfleik. Hjá Haukum voru Siarre Evans og Dagbjört Samúelsdóttir atkvæðamestar. Evans var með 9 stig, 14 fráköst, þar af 6 sóknarfráköst eða einum fleiri en allt Grindavíkurliðið, 5 stoðsendingar og Dagbjört var með 7 stig.
Dagbjört Samúelsdóttir varð eldi að bráð í þriðja leikhlutanum og skoraði 11 stig, þar af þrjár þriggja stiga. Með tveimur þristum frá henni voru Haukar með 10-12 stiga forustu en Crystal Smith hélt Grindavík inn í leiknum með því að skora átta stig á fyrstu fjóru mínútunum í þriðja leikhluta. Þá loksins fóru fleiri Grindvíkingar að láta til sín taka í sókninni og minnkuðu muninn í 6 stig, Jóhanna Rún Styrmisdóttir og Berglind Anna Magnúsdóttir skoruðu sitt hvora körfuna, stuttu síðar skoraði Helga Rut Hallgrímsdóttir og þar með voru þær búnar að skora meira á einni mínútu en þær höf’ðu gert allan fyrrihálfleikinn, þ.e.a.s. leikmenn Grindavíkur sem hétu ekki Crystal Smith. Haukar voru ekki á því að leyfa Grindavík að koma sér inn í leikinn og Dagbjört hélt áfram að salla niður stigum á þær ásamt því að Lovísa Björt Henningsdóttir fór mikinn og skoraði 6 stig. Haukar komust mest 17 stigum yfir en Petrúnella Skúladóttir og Jóhanna Rún löguðu stöðuna aðeins með því að setja sitt hvorann þristinn og Mary Jean Sicat setti niður tvö víti. Haukar því 12 stigum yfir, 57-45 eftir þrjá leikhluta.
Í fjórða leikhluta fóru Grindavík að pressa stíft og bar það fínan árangur. Ásamt dreifðri sóknarábyrgð tókst þeim að komast inn í leikinn og saxa á forskot Hauka hægt og rólega. Með rétt tæpar tvær mínútur til leiks voru þær aðeins fimm stigum undir. Ef það hefði ekki verið fyrir Lovísu Björt Henningsdóttur þá hefði Grindavík jafnvel komist yfir en þær réðu ekkert við hana undir körfunni og skoraði hún 10 stig og tók 4 sóknarfráköst í leikhlutanum. Nær komst Grindavík ekki og Haukar vann leikinn með átta stigum, eða 73-64.
“Ég reyndi bara að hjálpa liðinu á vellinum eins mikið og ég gat. Ég fann að ég var í góðum fílíng og tók þau skot sem ég fékk.”
“Ég er mjög sátt með mína frammistöðu og ánægð með sigurinn. Það er gaman að geta stigið upp þegar aðrar eru ekki að skora mikið og það sýnir að við erum með gott lið”
Sagði Lovísa Björt Hennigsdóttir við Körfuna að leikslokum.
Stigahæstar hjá Haukum voru: Dagbjört Samúelsdóttir 19 stig, Lovísa Björt Henningsdóttir 18 stig/7 fráköst, Siarre Evans 15 stig/20 fráköst/10 stoðsendingar.
Stigahæstar hjá Grindavík voru: Crystal Smith 32 stig/4 stoðsendingar, Helga Rut Hallgrímsdóttir 7 stig/8 fráköst.
Leikmenn leiksins: Siarre Evans og Lovísa Björt Henningsdóttir.
Umfjöllun – K. Bergmann
Myndin hér að ofan tók tomasz@karfan.is fyrir karfan.is þar sem hægt er að sjá fleiri myndir frá leiknum.