Sökum lélegs internetssambands og svo vinnu, gat ég ekki skrifað pistil eftir sigurinn í Garðabænum á föstudagskvöldið en svei mér þá ef það er ekki bara meira taugatrekkjandi að fylgjast svona með úr fjarlægð í gegnum internetið…..
En gleðin var mikil hér um borð og svo til að smella rjóma ofan á kökuna komu Agnar, Daníel og Margrét okkur í úrslit Útsvarsins svo föstudagskvöldið 13. apríl var sannkallað happakvöld hjá okkur Grindvíkingum 🙂
En baráttan heldur áfram á morgun þegar 3. leikurinn í rimmu Grindavíkur og Stjörnunnar fer fram í Röst okkar Grindvíkinga. Leikurinn hefst kl. 19:15 og má búast við húsfylli!
Fyrir þá sem ekki vissu það þá vann Þór Þorlákshöfn KR á útivelli í kvöld og hefur tekið forystu, 1-2 og getur tryggt sér farseðilinn í lokaúrslitin með sigri á heimavelli á fimmtudagskvöld.
En að okkar leik á morgun.
Staða okkar er vissulega þægileg en hún getur í leiðinni verið mjög hættuleg! Allt tal og vangaveltur um andstæðing í úrslitunum er mjög hættulegt og í raun fáranlegt! Tap á heimavelli myndi opna þessa seríu upp á gátt og því er mjög mikilvægt að liðið okkar klári dæmið bara á morgun og komi okkur strax í úrslitarimmuna. Sem fyrr skiptir stuðningur grindvískra áhorfenda öllu máli og vill ég sjá húsfylli á morgun!
Eins og kom fram á facebook síðu körfunnar verða grillaðir hamborgarar fyrir utan Salthúsið fyrir leik og byrjar húllumhæ-ið um kl. 17:30. Láki verður auðvitað með opið fyrir þá sem eru þyrstir og þurfa söngvatn fyrir átökin!
Þessi sería er sko ekki búin og þeir sem þekkja eitthvað til Teits Örlygssonar vita að hann er ekki búinn að kasta inn hvíta handklæðinu! Leikir Grindavíkur og Stjörnunnar hafa nánast alltaf verið jafnir og er ég nokkuð viss um að það verði upp á teningnum á morgun líka. Sem betur fer höfum við verið virkilega góðir í að klára þessa jöfnu leiki en samt veit maður aldrei. Því er mjög mikilvægt að mæta með blóðbragðið og ganga frá þessu strax! Í viðtölum við Helga og leikmenn liðsins, er skemmtilegt að sjá að það virðist alltaf vera til pláss fyrir bætingu. Við erum aldrei almennilega sáttir sem gefur til kynna að liðið eigi helling inni. Stígandinn hefur verið góður i þessu undanfarið og vonandi heldur hann áfram.
Allir að mæta í gulu á morgun og öskra úr sér raddböndin!
Áfram Grindavík!