Grindavíkurstelpurnar tryggðu sér farseðilinn með sigri í oddaleik á móti KFÍ í kvöld. Leikurinn var hörku spennandi en okkar stelpur náðu að knýa sigurinn fram og farseðilinn í deild hinna bestu að ári!
Lokatölur urðu 50-47. Glæsilegt stelpur og innilega til hamingju!
Á morgun hefst svo úrslitakeppni Iceland Express deildar karla en þar munum við deildarmeistararnir, etja kappi við ungt og efnilegt lið nágranna okkar úr Njarðvík.
Leikdagar eru þessir:
Leikur 1 í Grindavík, fimmtudaginn 29. mars kl. 19:15
Leikur 2 í Njarðvík, sunnudaginn 1. apríl kl. 19.15
Leikur 3 ef kemur til oddaleiks, í Grindavík fimmtudaginn 5. apríl kl. 19:15.
Þessi lið mættust á dögunum í Njarðvík og þá var um algera upprúllun að ræða hjá okkar mönnum en ég trúi ekki að sá leikur gefi rétta mynd af Njarðvíkurliðinu, þvílíkir voru yfirburðirnir. Njarðvíkingar ventu sínu kvæði í kross fyrir þetta tímabil og ákváðu að byggja liðið eingöngu upp á ungum og upprennandi heimamönnum, auk leyfilegra 2 Bandaríkjamanna. Er ekki annað en hægt að taka hatt sinn ofan af fyrir Njarðvíkingum og er ég viss um að framtíðin er björt hjá þeim. En að öllu jöfnu þá eiga okkar menn að fara auðveldlega í gegnum þessa rimmu en slíkt tal er alltaf hættulegt eins og ég hef margoft komið inn á. Þegar við mætum með hausinn á einhverjum allt öðrum stað en inni á vellinum, þá er voðinn vís og flest ef ekki öll lið geta unnið okkur! En þegar við mætum tilbúnir til leiks, eins og í Njarðvík um daginn þá standast fá eða engin lið okkur snúning! Leikurinn á móti Njarðvík um daginn var eins og leikur drengja á móti karlmönnum, svo einfalt er það. Njarðvíkingar komust hvorki lönd né strönd á móti okkur og við gátum skorað mjög auðveldlega á þá. Svo spurningin hlýtur að vera hvernig liðin mæta tilbúin á morgun. Ég hræðist enga þegar okkar menn mæta tilbúnir til leiks og þar sem alvaran er að bresta á, þá ætla ég að treysta því að þeir mæti með blóðbragðið í skoltinum og……..
Nú hljóta Grindvíkingar að ætla fjölmenna á leikina í úrslitakeppninni en okkar stuðningur er gulls ígildi fyrir liðið. Við þurfum að ná gamla góða baráttuandanum og ef það tekst, þá er ég viss um að okkar menn fara alla leið í ár!
Í lokin bendi ég á þessa vefslóð en mjög glæsilegur þáttur um komandi úrslitakeppni, var á Stöð 2 sport í opinni dagskrá á mánudaginn. Hér ræða þeir Arnar Björnsson, Svali Björgvinsson og okkar eigin Gummi Braga um þessa rimmu nágrannanna. http://visir.is/iex-deildin–grindavik—njardvik-%7C-upphitunarthattur-stodvar-2-sport/article/2012120329093
Áfram Grindavík!