Grindavík getur tryggt sér Deildarmeistaratitilinn í kvöld með sigri á tvöföldum meisturum síðasta árs, KR. Leikurinn fer fram í Röst okkar Grindvíkinga og hefst kl. 19:15.
Þótt Deildarmeistaratitilinn verði tryggður í kvöld þá verður hann ekki afhentur en við fáum að sjá titil í kvöld því 9. flokkur karla varð bikarmeistari um síðustu helgi og verða drengirnir hylltir á leiknum í kvöld.
Allir að sjálfsögðu hvattir til að mæta en við skulum gerast eilíitið spekingsleg og rýna í rimmu kvöldsins.
Leikurinn í kvöld verður fjórða viðureign liðanna í vetur og höfum við unnið 2 leiki en KR 1.
Við byrjuðum tímabilið með að vinna KR í leik um titilinn Meistari Meistaranna með flautukörfu Paxels og gaf þessi sigur fyrirheit um það sem koma skyldi!
Því næst jörðuðum við KR í deildinni í lok nóvember og voru Kanar KR-inga látnir fara fljótlega eftir þann leik.
Þeir mættu með 3 nýja útlendinga til leiks í byrjun ársins og það varð þeim kannski að happi í leik liðanna í 16-liða úrslitum Powerade bikarsins. Vissulega gat verið um tvíeggja sverð að ræða fyrir KR-inga í þessum leik því eins lítið og nýju útlendingarnir voru komnir inn í leik liðsins þá vissu andstæðingarnir jafnvel minna um þá. Óvissan bar sigurorð af samæfingunni að þessu sinni og KR-ingar unnu nauman sigur, 81-76. Nýju Kanarnir áttu stórleik og þá sérstaklega bakvörðurinn Joshua Brown. Hann átti síðan hvern stórleikinn af fætur öðrum en eitthvað virðast andstæðingarnir vera farnir að læra inn á hann og hefur minna farið fyrir honum síðan.
Stóra Kananum, Robert Ferguson hefur vaxið ásmegin að undanförnu og er með 17,6 framlagsstig að meðaltali (14,4 stig, 7,4 fráköst og 1,6 varin skot).
Joshua er hæstur KR í framlagsstigum með 20,4 (19,3 stig, 4,6 stoðsendingar og 2,4 stolnir.)
Þriðji útlendingurinn sem kom um áramótin, Serbinn Dejan Sencanski hefur bætt leik sinn jafnt og þétt og er þriðji í framlagsstigum með rúm 17 framlagsstig (13,8 stig, 6 fráköst, tæp 40% í 3-stiga).
Helstu íslensku vopn KR-inga eru Hreggviður Magnússon, Finnur, Magnússon, Emil Þór Jóhannsson og hinn eitilharði Skarphéðinn Ingason.
Af okkar mönnum er allt gott að frétta og engin meiðsli að hrjá mannskapinn. Gengið í vetur hefur auðvitað verið virkilega gott og hafa einungis 2 leikir tapast en nokkrir sigrarnir hafa verið ansi tæpir svo ekki sé meira sagt…. Við höfum unnið 3 leiki með skoti á lokasekúndu og 2 þessara sigra hafa komið á móti svokölluðum minni spámönnum, ÍR og Haukum.
Ég mun aldrei skilja þetta hjá okkur að fara nánast alltaf á sama plan og andstæðingur okkar! Ég sá nánast fyrir mér jafnan leik á móti botnliði Vals hér um daginn! Sömuleiðis myndum við jafnvel gefa LA Lakers hörkuleik! Af hverju getum við aldrei mætt til leiks tilbúnir frá fyrstu mínútu og spilað á fullu gasi allan leikinn???? Gott dæmi er leikurinn á móti Tindastóli um daginn, í 3 leikhluta var bara 1 lið á vellinum en í lokin hleyptum við leiknum upp í spennu, til hvers??? Með fullri virðingu fyrir ÍR og Haukum þá eigum við bara að flysja svona lið hvar og hvenær sem er! Ég man að fyrir fyrri leikinn á móti KR í deildinni að þá höfum við verið hálf daprir en samt að vinna leikina og ég átti því von á hörku leik en hvað gerðist, við vissum að við vorum að fara mæta tvöföldum meisturum KR og settum strax í fluggírinn og völtuðum yfir þá! Mikið yrði gaman að sjá okkur mæta ALLTAF svona til leiks og spila ALLAN tímann svona!
Ég er viss um að sú verður raunin í kvöld og við tryggjum heimaleikjaréttinn mikilvæga í gegnum úrslitakeppnina. Til þess að svo megi verða þurfa ALLIR að mæta og láta VEL í sér heyra!
Áfram Grindavík!