Stærsti leikur tímabilsins til þessa verður leikinn í kvöld en þá mætum við tvöföldum meisturum síðasta árs, KR í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins. Leikurinn fer fram í DHL-höll þeirra KR-inga og hefst kl. 19:15.
KR-ingar ætla sér að fylla húsið og því ríður á að Grindvíkingar fjölmenni og mæti snemma. OG LÁTI Í SÉR HEYRA!!!
KR mætir til leiks með gjörbreytt lið frá því fyrir áramót en þeir létu báða Kanana sína fara og hafa fengið þá Robert Ferguson og Joshua Brown í þeirra stað. Eins hafa þeir fengið Serbann Dejan Sencanski en hann lék ekki með KR í fyrsta leik á nýju ári en það gerðu Kanarnir og þeir komust vel frá sínu, Joshua með 26 stig og 5 stolna bolta og Robert með 17 stig og 6 fráköst. Ekki er vitað hvort Serbinn verði með. Hægt er að sjá viðtal við Kanana á Youtube en linkurinn á það er í síðasta pistli sem ég setti inn.
Við unnum Njarðvík í fyrsta leik eftir áramót en áferðarfallegt var það ekki en slen var líklega í flestum eftir jólasteikina. En að vinna lélegu leikina er merki góðra liða en við komumst ekki endalaust upp með það. Ég hef enga trú á öðru en að jólasteikin verði horfin af okkar mönnum og þeir mæti með blóðbragð í munni. Það er mikið í húfi og því VERÐA Grindvíkingar að fjölmenna og láta vel í sér heyra. Við ætlum okkur í bikarúrslitin 3. árið í röð og þessi leikur er einn liður í því.
Áfram Grindavík!