Iceland Express deildin byrjar að rúlla í kvöld þegar kvenfólkið hefur leik en því miður þá teflum við Grindvíkingar ekki fram liði að þessu sinni í efstu deild sökum manneklu en ungu stelpurnar munu leika í 1.deild og öðlast þannig dýrmæta reynslu og koma tvíefldar til leiks í efstu deild von bráðar og þá munu okkar brottfluttu skvísur vonandi snúa til baka.
En karlarnir hefja leik á morgun og við Grindvíkingar byrjum á stórleik, mætum Keflavík á heimavelli og hefst leikurinn kl. 19:15
Eins og við vitum öll þá varð Grindavík Meistari meistaranna á sunndagskvöld þegar tvöfaldir meistarar síðasta árs, KR voru lagðir á velli á þeirra heimavelli. Leikurinn var víst hin mesta skemmtun og gefur góð fyrirheit fyrir tímabilið.
Okkar menn litu víst bara nokkuð vel út og sérstaklega þar sem þeir eru ennþá ekki komnir í sitt besta form. Paxel hafði ekkert leikið á undirbúnginstímabilinu sökum meiðsla og ennþá erum við bara með einn Kana, Giordan Watson en hann var víst frábær í leiknum og fögnuðu fáir eins mikið eins og hann í leikslok! Strax virðist stórt og myndarlegt Grindavíkurhjarta slá innra með honum og hafa komið upp hugmyndir með að kalla hann Gogga í Garði eða Watson í Vík…. Hinn Kaninn, J´Nathan Bullock verður ekki kominn í tæka tíð fyrir þennan fyrsta leik á morgun en stefnt er á að fá hann til landsins í lok vikunnar. Því miður tókst ekki að vinna pappírsmálin nógu hratt svo hann kæmist í fyrsta leikinn en sígandi lukka er oft best….
Keflvíkingar mæta með ansi breytt lið til leiks og er nýr/gamall þjálfari tekinn við. Guðjón Skúla hætti og Sigurður Ingimudnar tók aftur við en hann gerði þá að margföldum meisturum síðast þegar hann þjálfaði Keflavík. Keflvíkingar hafa sömuleiðis misst marga leikmenn og ber þar helst að nefna Sigurð Þorsteinsson sem gekk í okkar raðir og Hörð Axel Vilhjálmsson sem leikur nú sem atvinnumaður erlendis. En Keflvíkingar eiga mikið af ungum og efnilegum leikmönnum og fengu Val Orra Valsson (sonur Vals Ingimundar) til liðs við sig en þar fer mjög efnilegur leikmaður. Keflvíkingar hafa hingað til fengið 5 rétta í útlendingalottóinu en Tómas Tómasson hefur séð um útdráttinn fyrir þá oftast…. Keflvíkingar tefla í ár fram 2 Bandaríkjamönnum sem eru víst báðir mjög góðir. Því má búast við hörku leik á morgun.
Okkur var spáð 2. sæti í spá þjálfara og fyrirliða fyrir mótið en við ætlum okkur sem fyrr, að gera betur en það! Við lítum ansi vel út og eigum að geta gert harða atlögu að öllum titlum. Það þarf líka góðan stuðning og hvet ég hér með alla Grindvíkinga til að mæta á leikinn og leikina í vetur. Mæting var góð í fyrra og við skulum gera ennþá betur í ár!
Áfram Grindavík!