Mikilvæg lokaumferð

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Í kvöld verður lokaumferð Iceland Express deildar karla leikin

og mæta okkar menn nágrönnum okkar úr Keflavík og fer leikurinn fram í Reykjanesbæ.  

Aðrir leikir eru KR – Snæfell, Njarðvík – Tindastóll, Fjölnir – ÍR, Hamar – Stjarnan

Staðan í deildinni fyrir lokaumferðina er svona:

# Lið Stig
1 Snæfell  17/4  34 
2 Grindavík  15/6  30 
3 KR 15/6 30
4 Keflavík 15/6 30
5 Stjarnan 12/9 24
6 ÍR 10/11 20
7 Njarðvík 9/12 18
8 Haukar 8/13 16
9 Tindastóll 7/14 14
10 Fjölnir 7/14 14
11 Hamar 6/15 12
12 KFÍ 5/16 10

 

 

Ég ætla bara að fjalla um okkar rimmu og hina toppviðureignina á milli KR og Snæfells og spá svo í spilin varðandi hugsanlega niðurröðun í 8-liða úrslitunum sem hefjast svo eftir viku.

 

Það hefur orðið mikil kúvending á leik okkar manna síðan Nick Bradford gekk til liðs við okkur og Helgi Jónas dustaði rykið af sínum skóm. 
Við unnum seiglusigur á Hamri daginn eftir að Nick kom til landsins en svo unnum við frábæran sigur á KR á útivelli og þá vantaði Helga þar sem hann lá veikur heima.  Ég hef áður minnst á Nick Bradford í pistlum mínum en náunginn er einstakur!  
Þegar hann kom var hann langt í frá í sínu besta formi en hann virðist fá samherja sína til að spila betur, það er eins og sjálfstraust leikmanna aukist við að labba inn á völlinn með honum!  Nick á ennþá slatta inni en hefur samt sem áður spilað vel það sem af er.  Mesta breytingin á okkar liði er kannski viðsnúningur Serbans geðþekka, Mladen Soskic.  Ég hef allan tímann haft þá trú að þetta sé hörku leikmaður en hann strögglaði ansi mikið til að byrja með.  Eftir leikmannabreytinguna eftir bikarúrslitaleikinn hefur Mladen blómstrað og átti sinn besta leik á móti Fjölni á mánudaginn en þá hitti hann m.a. úr 7 af 9 3-stiga skotum sínum og setti um tíma 6 í röð!!  Það er ekki amalegt fyrir okkur ef hann heldur áfram að bæta sinn leik.  Allt liðið hefur einhvern veginn stigið upp eftir vonbrigðin í höllinni og sýnt að það býr hellings karakter í því.  Sjálfstraustið var komið niður í kjallara en það hlýtur að vera ferðast á góðum hraða upp á efstu hæð núna eftir 3 sigurleiki í röð!

 

Leikurinn á móti Keflavík er mjög mikilvægur upp á sætaröðun í deildinni fyrir komandi úrslitakeppni.  Sigur tryggir okkur 2.sætið í deildinni og þ.a.l. viðureign gegn Njarðvík í 1.umferð úrslitakeppninnar en Njarðvík er fast í 7.sæti og getur hvorki færst ofar né neðar.  Ef sú yrði raunin þá er KR með 3.sætið gulltryggt, óháð úrslitum úr leik þeirra gegn Snæfelli því þeir eru með betri innbyrðisstöðu gegn Keflavík. Liðið sem endar í 3.sæti lendir á móti ÍR sem er gulltryggt með 6.sætið.  KR-ingar eru eflaust ekkert sérstaklega spenntir yfir rimmu við ÍR eftir kennslustundina um daginn í Seljaskólanum….  Keflavík myndi þá lenda í 4.sæti og fá Stjörnuna í 1.umferðinni.

 

Ef við hins vegar töpum leik okkar á móti Keflavík í kvöld þá er 2 möguleikar í stöðunni fyrir okkur varðandi sæti og væntanlegan mótherja í 1.umferð, fer allt eftir úrslitum í leik KR og Snæfells.  Ef KR vinnur þá tryggja þeir sér 2.sætið vegna betri innbyrðisstöðu gegn Keflavík og þá myndi Keflavík enda í 3.sæti og við í 4.sæti.  Þá myndi KR mæta Njarðvík, Keflavík ÍR og við myndum mæta Stjörnunni í 1.umferðinni.  Ef KR tapar endum við í 3.sæti og KR í 4.sæti, vegna betri innbyrðisstöðu okkar gegn KR.  Þá myndi Keflavík mæta Njarðvík, við mætum ÍR og KR myndi mæta Stjörnunni í 1.umferðinni.  Nóg um pælingar um væntanlega úrslitakeppni og að aðalleikjum kvöldins!

 

Keflavík – Grindavík.  Ég get auðvitað ekki annað en spáð mínum mönnum sigri og það geri ég fullur sjálfstrausts!  Liðið er einfaldlega komið á blússandi siglingu og það er sterkur meðbyr í seglin.  Án þess að vita nokkuð um það þá geri ég ráð fyrir Lalla í búningi í kvöld.  Hann þarf að mínu mati að ná einum alvöru leik fyrir úrslitakeppnina og vonandi verður hann klár í slaginn í kvöld.  Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikið það myndi styrkja okkur!  Keflvíkingar eru auðvitað með hörkulið en það hefur tekið ansi miklum breytingum síðan við mættum þeim fyrir jól á okkar heimavelli.  Þeir skiptu út báðum útlendingum sínum en Serbinn þeirra hafði gert mjög góða hluti fram til þess tíma en sagan segir að hann hafi ekki verið sá besti í búningsklefanum… 

Opinber skýring brottvikningar hans voru meiðsli en ég dreg það í efa.  Í staðinn fengu Keflvíkingar Thomas Sanders og annan Serba.  Sanders byrjaði mjög vel og er mjög góður alhliða leikmaður.  Serbinn hefur ekki virkað eins vel en á eflaust eitthvað inni.  Þegar Sigga Ingimundar var vikið úr starfi hjá Njarðvík þá gafst Magnús Gunn upp í Njarðvík og skipti yfir til síns gamla liðs og hefur náð sér mun betur á strik með Keflavík en hann gerði með Njarðvík.  Það er því ljóst að Keflvíkingar eru ekki árennilegir fyrir lokaátökin.

 

KR – Snæfell.  Væntanlega verður Fannar ekki með í þessum leik og fyrirfram ætti það að gera möguleika KR að engu, m.v. gengi liðsins síðan Fannar meiddist.  Ég ætla hins vegar að tippa á að KR vinni þennan leik því þeir hafa að meiru að keppa en Snæfell sem hefur nú þegar tryggt sér Deildarmeistaratitilinn.  KR eigir von um 2.sætið en þarf þá að treysta á sigur Keflavíkur gegn okkur og því hljóta þeir að mæta brjálaðir til leiks á móti Snæfelli.  Snæfell er ennþá að púsla sínu liði almennilega saman en Ryan Amaroso og Emil eru bara nýstignir upp úr meiðslum sínum.  Ég spái því KR sigri.

 

Ef þessi spá rætist mun 1.umferð úrslitakeppninnar líta svona út og þar sem ég er svo mikill spámaður þá læt ég spá fylgja með um lyktir þessara rimma:

 

Snæfell – Haukar      2 – 0

Grindavík – Njarðvík  2 – 1

KR – ÍR               1 – 2

Keflavík – Stjarnan   2 – 1

 

Spáum ekki meira að sinni 🙂

Ég hvet alla Grindvíkinga til að fjölmenna til Keflavíkur í kvöld og styðja við bak strákanna okkar.

Áfram Grindavík!