Sá kastanínubrúnhærði á eflaust eftir að koma með sinn pistil
um þennan frábæra sigur en ég verð vant viðlátinn fram í byrjun apríl við gjaldeyrissöfnun á ballarhafinu og á því verðið þið lesendur góðir að taka mið, við lestur pistla minna.
Úr fjarska lítur út fyrir frábæran leik okkar manna en þetta var fyrsta tap KR á heimavelli í vetur og fyrsta tapið eftir áramót. Ég var búinn að segja frá því að Fannar Ólafs er meiddur og verður ekki með næstu leiki en það vantaði svo sannarlega í okkar lið líka því 2 helstu leikstjórnendur liðsins, Lalli og Helgi Jónas voru ekki með. Lalli verður vonandi klár í lokaleikinn í deildinni á móti Keflavík og Helgi Jónas lá veikur heima og fylgdist eflaust með á krtv.
Mladen tryggði okkur sigur á lokasekúndunum og það mun eflaust færa honum byr undir báða vængi en í gær skoraði hann 17 stig, tók 8 fráköst og gaf 3 stoðsendingar Óli troð var frábær skv. tölfræðinni og bestur okkar manna með 25 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 4 varin skot! Ryan var sömuleiðis frábær með 26 stig og 11 fráköst. Ég sá fyrri hálfleikinn á krtv og réðu KR-ingarnir ekkert við hann sem að ósekju hefði alveg mátt fá boltann meira þá. Paxel er óðum að finna sitt besta form og var með 19 stig og 5 fráköst. Nick Bradford er ótrúlegur! Var langt í frá með bestu tölurnar í gær eða 8 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst en samt virðist mest vera talað um hann í fjölmiðlunum…. Það færast einhvern veginn allir upp á annað level með því að labba inn á völlinn með kappanum sem virðist ekki geta haldið þverrifunni lokaðri á meðan leik stendur en þetta hataði maður hér í den þegar hann lék með Keflavík en núna elskar maður þetta 🙂 Samt ljóst að Nick á helling inni og það er náttúrulega mjög góðs viti fyrir okkur.
Frábært að vinna þennan leik leikstjórnendalausir og ekki verra að það var gegn KR því þeir eru mjög góðir í að dekka boltann upp með Marcus Walker fremstan í flokki. Lalli og Helgi munu styrkja lið okkar mjög mikið þegar þeir koma inn, það er ljóst.
Næsti leikur er á móti Fjölni sem setti mig í 50% spáhlutfall í þessari umferð með því að vinna Tindastól. Ef þið kíkið á karfan.is þá getið þið séð sannkallaða tröllatroðslu hjá Brandon Brown hjá Fjölni, þvílík troðsla!! Fjölnismenn eygja þar með ennþá von um sæti í úrslitakeppninni og mæta dýrvitlausir til leiks. Það gengur því ekki hjá okkar mönnum að mæta með vanmat í farteskinu, þá gæti illa farið!
Áfram Grindavík!