Flottur sigur hjá stelpunum

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Næst síðasta umferð Iceland Express deildar kvenna fór fram í kvöld og þar mættust Snæfell og Grindavík í Stykkishólmi

Byrjunarlið leiksins:
Snæfell: Björg, Berglind, Hildur, Monique, Laura.
Grindavík: Berglind, Helga, Harpa, Agnija, Janese.
 
Laura Audere byrjaði af krafti með fyrstu 5 stig leiksins og 3 fráköst. Snæfell komst svo í 7-0 áður en Janese Banks setti þrist fyrir Grindavík. Snæfell voru komnar í 12-3 þegar Jóhann Ólafsson tók leikhlé til að fara yfir málin sem var góð vítamínsprauta fyrir liðið sem kom mun ferskara til leiks og náði að saxa forskotið niður í 14-12. Snæfell áttu í allnokkrum vandræðum með Grindavík undir lok fyrsta hluta og Grindavík jöfnuðu 18-18 eftir að Helga Hjördís fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og komust svo strax yfir 18-20 sem var staðan eftir fyrsta hluta.
 
Annar hluti byrjaði jafn og hressandi en Snæfell náði að jafna 23-23 og allt var í járnum og lítið skorað hjá liðunum sem voru framan af einungis búin að setja fimm og sex stig. Leikurinn varð mistækur fyrir vikið og mikið um tapaða bolta. Liðin skiptust á forystu en eftir að Snæfell hafði yfir 29-27 tóku Grindvíkingar 9-0 með þristasýningu í 29-36 þar sem Berglind Anna setti tvo þrista og Janese Banks einn. Snæfellsstúlkurnar rifu sig þó upp og ætluðu ekki að láta valta yfir sig heima svo glatt, unnu sig upp og jöfnuðu 38-38 en Grindavík laumuðu tveimur stigum í lokin og staðan 38-40 í hálfleik.
 
Hjá Snæfelli var Monique Martin komin með 17 stig og 9 fráköst en Laura Audere var með 11 stig og 4 fráköst. Í liði Grindavíkur var Janese Banks komin með 16 stig og 7 fráköst, Berglind Anna Magnúsdóttir þar á eftir með 7 stig.
 
Grindavík ætluðu sér greinilega að berjast fyrir sínu og áttu fyrstu sjö stig þriðja hluta og komust í 38-47. Líkt og áður í leiknum náðu Snæfellsstúlkurnar að hrista þetta af sér og minnkuðu muninn í 46-47. Snæfell hékk þó skrefinu á eftir mest af í þriðja hluta og náðu að skapa sér lítið rými gegn vörn Grindavíkur en náðu þó að draga vel á og voru einu stigi undir fyrir lokahlutann 58-59.
 
Monique kom Snæfelli í 63-62 með þrist og svo tvö til í 65-62 en spennan fór að magnast í húsinu undir lokin þegar staðan var 65-65. Grindavík kom sér þægilega í 65-70 og Snæfell átti erfitt með að splæsa í eitthvað gott til að eiga við þá stöðu og lítið fór ofan í þrátt fyrir tilraunir en leikhlutinn fór 9-13 fyrir Grindavík. Leikurinn endaði 67-72 fyrir gestina í Grindavík.
 
Grindavíkurstúlkur eiga hrós skilið fyrir góða baráttu í leiknum og góðar rispur sem skilar þeim kannski áframhaldandi sæti í deildinni þar sem þær sitja í næst neðsta sæti með 10 stig en það ræðst í síðasta leik deildakeppninnar gegn neðsta liðinu Fjölni sem er með 8 stig. Snæfell hins vegar átti slakan dag þar sem lítið gekk upp. Það var þungt sóknarlega og vörnin var oft sein og skrefi á eftir. Þær eiga útileik við Njarðvík eftir og er barátta milli liðanna um efsta sæti b-riðils en Njarðvík er með 18 stig og Snæfell 16. Snæfelli dugir þó ekkert annað en sigur til að taka það sæti eftir að hafa tapað núna þriðja leik sínum í röð en bæði lið hafa þó tryggt sig inn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar
Janese Banks 25/12 fráköst, Agnija Reke 13/9 fráköst/5 stoðsendingar, Berglind Anna Magnúsdóttir 11, Heiða B. Valdimarsdóttir 9, Helga Hallgrímsdóttir 9/8 fráköst/8 stoðsendingar