Körfuknattleiksfólkið Petrúnella Skúladóttir og Jón Axel Guðmundsson voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Grindavíkur 2015 við hátíðlega athöfn í Gjánni á gamlársdag. Petrúnella var lykilmaður í bikarmeistaraliði Grindavíkur síðasta vor og Jón Axel lykilmaður í U20 ára landsliði Íslands í körfubolta og hjá meistaraflokki Grindavíkur.
Allar deildir UMFG og Golfklúbbur Grindavíkur tilnefndu íþróttamenn og íþróttakonur ársins úr sínum röðum. Valnefndin samanstendur af stjórn UMFG og frístunda- og menningarnefnd. Það voru Kristín María Birgisdóttir formaður frístunda- og menningarnefndar og Sigurður Enoksson formaður UMFG sem veittu viðurkenningarnar. Kjörinu stjórnaði Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs. Óhætt er að segja að umgjörð kjörsins hafi aldrei verið glæsilegra, á heimavelli í nýrri félagsaðstöðu UMFG.
Jón Axel var fastamaður í U-20 ára landsliði Íslands, sem endaði í 2. sæti á Norðurlandamótinu í sumar eftir spennandi úrslitaleik þar sem hann var einn af lykilmönnum liðsins og stigahæsti maður mótsins. Það sem af er þessu keppnistímabili hefur Jón Axel verið einn af betri leikmönnum úrvaldsdeildarinnar og er meðal 20 efstu í stigaskori, stoðsendingum, fráköstum og stolnum boltum. Jón Axel leggur ávallt hart að sér við æfingar og er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.
Petrúnella var ein af burðarásum liðsins síðasta tímabil. Hún var valinn besti leikmaður bikarúrslitaleiksins sem Grindavík vann svo eftirminnilega. Hún var valin besti leikmaður kvennaliðs Grindavíkur tímabilið 2014-2015. Petrúnella var valinn í 5 manna úrvalslið KKÍ í lok tímabils. Petrúnella á að baki fjöldan allan af landsleikjum fyrir hönd Íslands. Flott íþróttakona og góður liðsmaður.
Efsta mynd: Jón Axel og Petrúnella.
Ýmsar aðrar viðurkenningar voru veittar, sjá nánar í fleiri fréttum á heimasíðunni. Fleiri myndir á Facebooksíðu bæjarins.
Eftirtaldir voru tilnefndir í kjörinu:
Tilnefndar sem íþróttakonur ársins 2015:
Birgitta Sigurðardóttir – Taekwondo
Guðrún Bentína Frímannsdóttir – Knattspyrna
Ingibjörg Jakobsdóttir – Körfubolti
Margrét Albertsdóttir – Knattspyrna
Petrúnella Skúladóttir – Körfubolti
Svanhvít Helga Hammer – Golf
Frá vinstri: Sigurður Helgi, Jón Axel, Haraldur Jón, Jón Kristinn, Björn Lúkas, Jósef Kristinn og Ólafur. Á myndina vantar Alex Frey.
Tilnefndir sem íþróttamenn ársins 2015:
Alex Freyr Hilmarsson – Knattspyrna
Björn Lúkas Haraldsson – Taekwondo
Haraldur Jón Jóhannesson – körfubolti (ÍG)
Jón Axel Guðmundsson – Körfubolti
Jón Kristinn Jósefsson – Knattspyrna
Ólafur Ólafsson – körfuknattleikur
Sigurður Helgi Hallfreðsson – Golf
Ný félagsaðstaða UMFG og Kvenfélagsins er glæsileg. Um 250 manns mættu á kjörið að þessu sinni og var athöfnin hin veglegasta. Nokkur myndbönd voru spiluð frá starfi og afrekum UMFG sem setti skemmtilegan svip á kjörið.
Bekkurinn var þétt setinn.
Þorsteinn Gunnarsson sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs stjórnaði kjörinu.
Sigurður Enoksson, formaður UMFG, flutti ávarp.
Myndir: Siggeir Fannar Ævarsson.