Ólafur Ólafsson í atvinnumennsku í Frakklandi

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Karfan.is greindi frá því núna fyrir stundu að Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, hafi skrifað undir samning við franska liðið St. Clement og muni leika með þeim næsta vetur. Ólafur var einn af betri leikmönnum Grindavíkur í vetur og steig vel upp í fjarveru annarra lykilmanna. Brotthvarf Óla er augljós blóðtaka fyrir Grindvíkinga en maður kemur alltaf í manns stað og óskum við Óla góðs gengis á nýjum vettvangi.

Óli var með 15 stig að meðaltali í leik í vetur og 7 fráköst. Hann setti ófáa stóra þrista eins og hann á kyn til en hann var með bestu þriggja stiga skotnýtingu allra leikmanna liðsins í vetur, 39,8%.

Frétt karfan.is:

„Ólafur Ólafsson leikmaður Grindvíkinga mun halda í útrás á næsta tímabili og spila með liði St Clement í NM2 deildinni í Frakklandi. Þetta staðfesti Ólafur í samtali við Karfan.is nú rétt í þessu. “Þetta var klárað samningslega í morgun og því allt klappað og klár. Ég hef leik með þeim eftir Evrópumótið í sumar.” sagði Ólafur.

Ólafur spilaði 23 leiki með Grindavík í vetur og skorað í þeim tæp 15 stig að meðaltali í leik og tók um 7 fráköst og því þarf ekkert að fjölyrða um blóðtöku á liði þeirra Grindvíkinga.

“Þeir eru sem stendur í NM2 deildinni en eru að slást um að komast upp sem stendur í NM1 deildina. Þetta kom nú upp rétt eftir áramót og til stóð að heimsækja þá núna á leiktíðinni en við hættum við það. Svo voru samningsviðræður komnar í gang að einhverju leyti í 8 liða úrslitum og stuttu eftir að við föllum úr leik þá var samningur tilbúin hjá þessu liði. Hann leit vel út og ég ákvað að slá til en þetta er 1 árs samningur í senn.” bætti Ólafur við.

Það var umboðsmaður sem kom þessu í gang sem að Logi Gunnarsson fyrrum atvinnumaður þekkti og kom Ólafi í samband við. “Núna er góðurtími fyrir mig að fara í þetta. Ég er búin að þreyfa fyrir mér síðustu tvö ár en aldrei neitt spennandi komið upp. Þetta er vissulega spennandi hvort sem þeir komast upp eða ekki. Það eru 56 lið í þessari NM2 deild og það er stórt svið til að sýna sig á og mikið ferðast. Nú verður þetta mín atvinna og ég get einbeytt mér enn betur að verða betri og betri á hverjum degi og læra eitthvað nýtt. Þetta er stórt skref hjá mér.”

En hvað með þessa NM2 deild?

“Það er sagt að þessi deild sé sterkari en hér heima og mig hlakkar til að takast á við þetta verkefni. Jóhann bróðir er körfuboltasjúkur og það kom á óvart hversu klár hann er í þessu öllu. Við ætlum að æfa vel í sumar samhliða lyftingum og auðvitað stefnan sett á að komast í landsliðshópinn fyrir verkefnið stóra. Þannig að það eru spennandi tímar.” sagði Ólafur.

Ólafur vildi svo bæta við að hann þakkaði klúbb sínum fyrir skilningsríki og allt sem þeir hafa gert fyrir hann. “Þeir hafa staðið við mig sem klettur og ef einhverjir eru þarna úti sem vilja spila fyrir pottþéttan klúbb sem stendur alltaf við sitt þá ættu þeir að klæðast gulu treyjunni hérna í Grindvaíkinni.”“