Aðalfundur knattspyrnudeildar Grindavíkur fyrir árið 2010 var haldinn í gærkvöld. Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:
,,Aðalfundurinn skorar á bæjaryfirvöld að ráðast sem fyrst í að reisa búnings- og félagsaðstöðu við Hópið og stúkuna. Minnt er á að 50% endurgreiðsla virðisauka af vinnu við íþrótta- og skólamannvirki gildir út þetta ár. Knattspyrnudeildin er tilbúin til þess að gera samning við Grindavíkurbæ og taka að sér byggingu á búnings- og félagsaðstöðu ef það mætti verða til þess að flýta framkvæmdum.”
Starfsemi knattspyrnudeildarinnar var öflug að vanda en Grindavík teflir fram liðum í úrvalsdeildum karla og kvenna og er með öflugt barna- og barnastarf. Reksturinn deildarinnar var nokkuð samkvæmt áætlun en afskriftir töluverðar. Stjórnin var endurkjörin í heild sinni en í henni eru Þorsteinn Gunnarsson formaður, Jónas Þórhallsson varaformaður, Sigurður Halldórsson ritari, Símon Alfreðsson gjaldkeri og Ragnar Ragnarsson, Bjarni Ólason og Sveinn Guðjónsson meðstjórnendur.
Árið 2011 er tileinkað sjálfboðaliðum á heimsvísu. Fram kom að sjálfboðaliðastörf í kringum knattspyrnudeild Grindavíkur eru áætluð 4-5 heilsársstörf, varlega áætlað, enda byggist öflugt íþróttastarf að mestu á sjálfboðaliðum. Vel hefur gengið að fá sjálfboðaliða til starfa fyrir knattspyrnudeildina og var þeim sérstaklega þakkað fyrir gott starf í þágu fótboltans. Þá hefur knattspyrnudeildinni gengið framar vonum að framlengja samninga við sína helstu bakhjarla.