Lokahóf Knattspyrnudeildar Grindavíkur fór fram með sl. laugardag í íþróttahúsinu í Grindavík. Lokahófið var afar glæsilegt að þessu sinni en alls sóttu um 250 manns hátíðarkvöldverðin og lokahófið og enn fleiri skemmtu sér vel fram eftir nóttu á dansleiknum.
Boðið var upp á frábæran kvöldverð frá grindvísku kokkalandsliði. Þeir Atli Kolbeinn, BBQ Kóngurinn, Bíbbinn og Villi á Vörunni sáu um matseldina af stakri snilld og var þeim ákaft fagnað á hófinu.
Aron Jóhannsson var valin besti leikmaður tímabilsins hjá karlaliði Grindavíkur þetta tímabilið. Hann var einnig valinn mikilvægasti leikmaður liðsins og var markahæstur í liðinu ásamt Dag Inga Hammer Gunnarssyni. Báðir skoruðu þeir 11 mörk í deild og bikar á tímabilinu. Dagur Ingi var einnig valinn efnilegasti leikmaður tímabilsins.
Una Rós Unnarsdóttir var valin besti leikmaður tímabilsins hjá kvennaliði Grindavíkur. Ása Björg Einarsdóttir var valin mikilvægasti leikmaður, Tinna Hrönn Einarsdóttir var markahæst leikmaður liðsins og Helga Rut Einarsdóttir var valin efnilegasti leikmaður tímabilsins.
Fleiri viðurkenningar voru veittar á hófinu. Benóný Þórhallsson var gerður að heiðursfélaga Knattspyrnudeildar Grindavíkur en hann hefur lengi verið afar öflugur styrktaraðili fótboltans í Grindavík og verið deildinni mikilvægur um áratugaskeið.
Hallfreður Bjarnason fékk viðurkenningu á hófinu fyrir ómetanlegt sjálfboðastarf í fjölda ára. Hallfreður hefur ávallt verið boðinn og búinn að aðstoða deildina í leikjum félagsins og viðburðurm.
Margrét Rut Reynisdóttir fékk viðurkenningu frá deildinni en Margrét hefur starfað sem þjálfari hjá deildinni í 10 ár. Hún hefur verið öflugur þjálfari hjá deildinni á síðustu árum.
Guðrún Árný, Friðrik Dór og Aron Can ásamt Bumblebee Brothers sáu svo um að skemmta fólki fram á rauða nótt.
Knattspyrnudeild Grindavíkur vill þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera lokahófið eins glæsilegt og raun ber vitni. Jafnframt þökkum við öllum þeim sem mættu á hófið og skemmtu sér vel fram eftir kvöldi.