Kristófer Páll Viðarsson hefur samið við Grindavík og gengur hann til liðs við Grindavík frá Reyni Sandgerði. Kristófer Páll er 25 ára gamall vængmaður sem ólst upp á Austfjörðum en hefur meðal annars leikið með Keflavík, Selfoss, Fylki og Leikni F.
Kristófer semur við Grindavík til loka tímabilsins 2024 og mun taka virkan þátt í uppbyggingu á liði Grindavíkur til næstu ára. Kristófer er nokkuð reynslumikill í Lengjudeildinni en hann átti t.a.m. frábært tímabil með Leikni F. árið 2016 í deildinni þegar hann skoraði 10 mörk í 22 leikjum. Kristófer varð fyrir mjög alvarlegum meiðslum fyrir nokkrum árum og hefur verið að koma ferli sínum á réttan kjöl. Á síðasta tímabili skoraði Kristófer 8 mörk með Reyni S. í 22 leikjum.
„Ég er mjög ánægður með að fá Kristófer Pál til okkar. Ég þekki hann aðeins frá því ég þjálfaði hann á Selfossi. Þetta er hæfileikaríkur strákur sem við vonum að muni stimpla sig inn hjá okkur í Grindavík,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Grindavíkur.
Grindavík býður Kristófer Pál velkominn til félagsins.