Grindavík hefur gert samning við varnarmanninn Vladimir Dimitrovski og mun hann leika með félaginu í sumar í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Vladimir er 33 ára gamall miðvörður sem kemur frá Makedóníu.
Vladimir á að baki 4 landsleiki með Makedóníu og átti einnig farsælan feril með U21 landsliði Makedóníu þar sem hann lék alls 19 landsleiki. Hann hefur leikið víða á ferli sínum en auk þess að leika í Makedóníu þá hefur hann leikið með félögum í Belgíu, Króatíu, Tékklandi, Grikkandi og í Azerbaijan.
„Ég er mjög ánægður með að fá Vladimir til liðs við okkur. Þetta er öflugur og reynslumikill leikmaður sem mun án efa verða mikilvægur leikmaður fyrir Grindavík í sumar. Þetta er mikill karakter og leiðtogi. Hann kemur til okkar í góðu formi og ég hlakka til að vinna með honum á leiktíðinni,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Grindavíkur.
Vladimir er mættur til Íslands og lék með Grindavík í tveimur leikjum í síðustu viku.
Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Vladimir velkominn til félagsins og hlökkum við til að sjá hann í búningi félagsins á komandi leiktíð.