Kvennalið Grindavíkur leikur í Dominos-deild kvenna á næstu leiktíð en liðið hafði betur gegn Njarðvík í úrslitaeinvíginu um deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna. Eftir að hafa lent 2-0 undir í úrslitaeinvígi 1. deildar kvenna í körfubolta þá fullkomnaði Grindavík endurkomuna með sjö stiga sigri í kvöld, 75-68 og vann einvígið 3-2 sem þýðir að liðið spilar í efstu deild á næstu leiktíð.
Einvígi liðanna hefur verið hörkuskemmtun. Njarðvík vann fyrsta leikinn örugglega og svo annan leikinn eftir þríframlengdan leik. Grindavík kom til baka og jafnaði metin í 2-2 svo það var allt undir er liðin mættust í Njarðvík í gærkvöld.
Leikurinn byrjaði af miklum krafti en Grindavík alltaf skrefi á undan. Staðan í hálfleik var 45-40 í hálfleik en það hægðist á stigaskorun beggja liða í síðari hálfleik. Heimastúlkur náðu hins vegar ekki að ógna forystu gestanna sem unnu á endanum sjö stiga sigur, 75-68, og tryggðu sér sæti í efstu deild kvenna í körfubolta á næstu leiktíð.
Jannon Otto var stigahæst í liði Grindavíkur með 23 stig og tók 14 fráköst. Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir skoraði 17 stig ásamt því að taka 10 fráköst. Hekla Eik Nökkvadóttir kom þar á eftir með 14 stig.
Algjörlega frábær vetur að baki hjá stelpunum okkar. Liðið er mjög ungt og eru flestir leikmenn liðsins á aldrinum 17-19 ára. Það hjálpaði liðinu verulega að fá til liðsins bandaríska leikmanninn Jannon Otto sem lék með liðinu eftir áramót.