Eldsumbrot þemað í nýjum varabúningum Grindavíkur

Ungmennafélag GrindavíkurKnattspyrna

Knattspyrnudeild Grindavíkur kynnir í samvinnu við Jóa Útherja nýjan varabúning félagsins fyrir komandi keppnistímabil í Lengjudeildinni. Grindavík hefur til fjölda ára leikið í bláum varabúningum en í tilefni af eldsumbrotunum sem hafa átt sér stað í nálægð við Grindavík var ákveðið að reyna að tengja nýjan búning við náttúruöflin sem eru allt í kringum okkur.

Þemað í búningnum er nýstorknað hraun sem flæðir fram með kröftugan kvikugang beggja vegna. Bleiki liturinn vísar til rauðglóandi skýjaþoku sem hvílir yfir bænum að næturlagi. Búningurinn rammar vel inn þann nýja veruleika sem blasir daglega við okkur Grindvíkingum en veitir okkur Kraft, Eldmóð og Hugrekki.

Við vonum að nýr búningur falli vel í kramið hjá stuðningsmönnum, bæjarbúum og knattspyrnuáhugamönnum um land allt. Hér er aðeins stigið út fyrir þægindarammann og vonum við að nýr varabúningur færi okkar liðum gæfum á vellinum í sumar!

Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur orðið sér út um smá magn af búningum sem er til í stærðinni frá XS til XXL. Hægt verður að fá búninginn merktan með númeri. Því miður verður búningurinn ekki til í barnastærðum.

Búningurinn kostar 9.990 kr.- og verður hægt að afhenda fyrstu eintök næstkomandi föstudag. Hægt er að panta eintak af búningum með tölvupósti á jonjulius@umfg.is.

Áfram Grindavík!
💛💙