Grindavík hefur samið við bandaríska vængmanninn Dion Jeremy Acoff um að leika með félaginu í sumar í Lengjudeildinni í knattspyrnu. Samningurinn gildir út leiktíðina 2021 og er Dion nú þegar kominn til landsins.
Knattspyrnuáhugamenn ættu margir að þekkja til Dion Acoff sem hefur leikið á Íslandi í nokkur ár. Hann varð meðal annars tvívegis Íslandsmeistari árin 2017 og 2018 með liði Vals. Hann hefur leikið 96 leiki í deild og bikar á Íslandi og skorað í þeim 17 mörk. Hann hóf feril sinn á Íslandi í Þrótti Reykjavík árið 2015 og lék þar í tvö ár áður en hann færði sig um set yfir í Val. Árið 2019 lék Dion með SJK í finnsku úrvalsdeildinni og svo aftur með Þrótti á síðustu leiktíð.
„Ég er afar glaður með að endurnýja kynni mín af Dion Acoff sem ég vann með í Val,“ segir Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur. „Dion færir okkar liði gríðarlegan hraða sem mun hjálpa okkur í sumar. Hann er vinnusamur og ekki síst frábær atvinnumaður. Hann er mikill sigurvegari sem er mikilvægur eiginleiki og á eftir að passa vel inn í verkefnið hérna í Grindavík í sumar.“
Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Dion Acoff velkominn til félagsins og væntir mikils af honum í sumar!