Dagur Kár Jónsson missti af næstum öllu síðasta tímabili vegna meiðsla, svo að eftirvæntingin fyrir því að spila á ný hlýtur að vera extra mikil. Við settum okkur í samband við hann og tókum púlsinn á honum, nú þegar loks lítur út fyrir að hægt verði að spila körfubolta í efstu deild á ný fljótlega.
Hvernig hefur þessi bið lagst í þig, og leikmannahópinn almennt?
Ég var mjög spenntur að fara aftur af stað þar sem ég var búinn að vera frá í rúma 9 mánuði. Þannig að það var smá svekkjandi að fara í svona langa pásu eftir að hafa aðeins spilað einn leik í deildinni. En við reyndum bara að gera sem best úr þessu og æfa vel heima til þess að vera tilbúnir þegar opnað var fyrir æfingar.
Hvernig er stemmingin í hópnum eftir þetta langa stopp? Eru menn orðnir hungraðir í að komast aftur á gólfið?
Það var gaman að hitta strákanna aftur og fá að byrja að æfa. Desember verður nýttur nánast sem annað undirbúningstímabil enda þurfa menn að komast aftur í takt við leikinn eftir langt stopp. En við bíðum spenntir eftir því að byrja að keppa aftur þegar ástandið er vonandi skárra.
Hvernig líst þér á leikmannahópinn hjá okkur í ár? Hvar liggja styrkleikar liðsins?
Við erum með flottan og vel samsettan hóp í ár. Styrkleikar liðsins liggja í breiddinni, við erum með marga góða leikmenn sem eru sterkir á ólíkum sviðum, menn þekkja sín hlutverk og róa allir í sömu átt að markmiðum liðsins.
Það hafa orðið stórstígar framfarir í aðstöðu til körfuknattleiksiðkunar í Grindavík síðustu misseri. Þetta hlýtur að vera jákvætt fyrir liðið?
Algjörlega, nýi salurinn gerir okkur kleift að komast oftar að æfa aukalega og hefur nýst okkur vel. Það hefur hinsvegar verið erfitt á þessum tímum að komast ekki í lyftingasalinn, en sér lyftingaraðstaða fyrir íþróttafólkið okkar er eitthvað sem er vonandi á dagsskrá í náinni framtíð.
Nú átt þú sterkar rætur til Keflavíkur, á pabbi þinn (Jón Kr. Gíslason) ekkert erfitt með að þú sért orðinn tengdasonur Grindavíkur?
Gamli maðurinn ber hlýjar taugar til Grindavíkur, enda spilaði hann hér undir lok ferilsins. Hann fær örugglega gæsahúð þegar hann mætir á leiki og heyrir “Og þeir skora” í upphitun, þó hann viðurkenni það kannski ekki.