„Reksturinn á deildinni orðin eins og hjá fyrirtæki“

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Ásgerður Karlsdóttir hætti í stjórn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur núna í vor eftir að hafa setið í stjórn deildarinnar í hartnær tvo áratugi. Ásgerður hefur haldið þétt utan um budduna hjá deildinni síðustu ár með farsælum hætti. Sonur hennar, Jens Valgeir Óskarsson, leikur með meistaraflokki karla, og því mun fylgast áfram grannt með starfinu og liðinu næstu árin.

„Ég byrjaði í stjórn deildarinnar árið 2002. Ég var beðin um að koma inn í stjórn af Lindu Maríu Gunnarsdóttur sem var þá að hætta. Ég ákvað að slá til,“ segir Ásgerður.

– Hvernig voru fyrstu árin í stjórn deildarinnar?
Fyrstu árin voru mjög ólík því sem þetta er núna en þá sá ég líka um að reka sjoppuna og selja miða fyrir utan það að vera gjaldkeri.

– Hvert hefur aðallega verið þitt verkefni í stjórn?
Ég hef séð um fjármálin. Síðustu árin hef ég séð um leyfin fyrir erlendu leikmennina. Þá hef ég verið í ýmsum öðrum verkefnum sem þarf að sinna í kringum körfuboltann en þau stærstu eru kannski þau verkefni sem þarf að sinna fyrir sjómannaballið líkt og starfsmannaráðningar, leyfin, barinn, frágang og uppgjör. Þá hef ég verið í samstarfi við knattspyrnudeildina þegar kemur að Þorrablótinu og séð um barinn og uppgjörið eftir það.

– Hefur mikið breyst í starfi deildarinnar frá því að þú byrjaðir og til dagsins í dag?
Já, það hefur töluvert breyst þetta er orðið meira eins og að reka fyrirtæki núna en var það kannski ekki, allavega ekki fyrst.

– Hvað er svona eftirminnilegast á þessum tíma í stjórn?
Eftirminnilegastir eru titlarnir að sjálfsögðu. Þá hefur það gefið mér mikið að vinna með öllu þessu frábæra fólki sem hefur verið með mér í þessu og hef lært mikið á þessum 19 árum

– Hvað hefur verið erfiðast á þessum tíma?
Ég man nú ekki eftir neinu sérstaklega erfiðu en við skulum segja að starfið sé nú ekki alltaf dans á rósum og höfum við þurft að takast á við ýmis mál –  mis skemmtileg.

– Ertu með góða sögu úr starfinu sem þú getur deilt með okkur.
Ég man svona helst eftir því sem snýr að mér sérstaklega að þegar ég var fimmtug þá kom ég erlendis frá að kvöldi afmælisdagsins og kom heim í fullt hús af fólki og var þar meðal annars fólk úr körfuboltastarfinu og Gauti og Bjarki sem þá voru í stjórn sungu og steppuðu fyrir mig afmælissönginn.

– Hver er ástæða þess að þú ákvaðst að stíga til hliðar úr stjórn í vor eftir langt og farsælt starf?
Ég ætlaði að hætta árinu áður en þar sem deildin fór í mikla fjárfestingu það árið vildi ég ekki skilja við fyrr en allt í sambandi við það var komið á hreint. Svo kom covid og þá var ég á báðum áttum hvort ég ætti að hætta því mér fannst ég þurfa að klára tímabilið en ákvað að þetta væri komið gott og að það væri komin tími á að aðrir tækju við.

– Af hverju ertu stoltust af á tíma þínum í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar?
Ég held að ég sé stoltust af því hvað við rákum þetta vel með góðri hjálp fyrirtækja hér í bæ því án þeirra er þetta ekki hægt og hvað við höfum alltaf verið með gott fólk í kringum þetta bæði leikmenn, þjálfara og aðra.

Viðtalið við Ásgerði birtist fyrst í Jólablaði körfuknattleiksdeildar sem kom út síðla árs 2020.  Blaðið má sjá í heild sinni með því að smella hér.