Hilmar McShane endurnýjar samning sinn við Grindavík

KnattspyrnaKnattspyrna

Hilmar Andrew McShane hefur endurnýjað samning sinn við Grindavík til næstu tveggja ára eða út keppnistímabilið 2022. Hilmar er einn af okkar uppöldu leikmönnum sem hefur leikið 25 leiki í deild og bikar með Grindavík, Keflavík og Njarðvík.

Hilmar, sem er 21 árs, tók þátt í 11 leikjum í deild og bikar með Grindavík í sumar. Hann er mjög leikinn miðjumaður en getur einnig leikið sem vængmaður. Faðir Hilmars er Ian Paul McShane sem átti langan og farsælan feril með Grindavík á sínum tíma.

„Það er ánægjuefni að Hilmar verði áfram með Grindavík næstu tvö ár,“ segir Gunnar Már Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. „Við teljum að Hilmar sé leikmaður sem á mikið inni. Hann er mjög vinnusamur og tilbúinn að færa fórnir til að bæta hæfni sína sem knattspyrnumaður. Okkur hlakkar til að sjá hann á ný í gula búningnum næsta sumar.“

Knattspyrnudeild Grindavíkur lýsir ánægju sinni með að einn af okkar uppöldu leikmönnum hafi samið á ný við félagið. Frekari frétta af leikmannamálum Grindavíkur er að vænta á næstu dögum.