Aron Dagur til liðs við Grindavík

KnattspyrnaKnattspyrna

Markvörðurinn Aron Dagur Birnuson er genginn til liðs við Grindavík og hefur skrifað undir samning við félagið til næstu tveggja ára. Aron Dagur er 21 árs og kemur til liðsins frá KA þar sem hann hefur leikið upp alla yngri flokka.

Aron Dagur hefur leikið 46 leiki í deild og bikar á ferli sínum með KA og á láni hjá Völsungi. Hann hefur verið einn af efnilegustu markvörðum landsins undanfarin ár og á að baki 15 leiki með yngri landsliðum Íslands.

„Það er mjög góð tilfinning að hafa skrifað undir samning hjá Grindavík,“ segir Aron Dagur. „Fjölskyldan mín býr hér í Grindavík og hér er mjög flott lið sem ég hef fylgst með lengi. Grindavík er flottur klúbbur og ég er spenntur að vera kominn hingað. Mínar væntingar eru að spila í efstu deild með Grindavík að ári. Aðstaðan hér er frábær og miklu flottari en ég bjóst við.“

Það er skemmtileg staðreynd að öll þrjú systkini Arons leika einnig sem markmenn í fótbolta. Anton Helgi leikur með GG og á að baki nokkra leiki í marki með Grindavík. Arnar Eyfjörð varð Íslandsmeistari með 5. flokki stráka í sumar og Sara Dögg leikur í marki með 5. flokki stelpna. Ótrúleg markmannsfjölskylda. Það má því með sanni segja að Aron Dagur hafi sterka tengingu til Grindavíkur.

Knattspyrnudeild Grindavíkur lýsir yfir mikilli ánægju með að Aron Dagur sé genginn til liðs við félagið býður hann hjartanlega velkominn til Grindavíkur.

Áfram Grindavík!