Fjórir uppaldir leikmenn semja við Grindavík

KnattspyrnaKnattspyrna

Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur skrifað undir tveggja ára samning við fjóra af ungum og uppöldum leikmönnum Grindavíkur. Þetta eru þeir Dagur Ingi Hammer Gunnarsson, Óliver Berg Sigurðsson, Símon Logi Thasaphong og Viktor Guðberg Hauksson. Allir hafa þeir komið við sögu í leikjum hjá Grindavík í sumar og eiga bjarta framtíð fyrir höndum hjá félaginu.

Viktor Guðberg er tvítugur varnarmaður. Hann hefur leikið nokkra leiki í sumar bæði í miðverði og bakverði. Viktor hefur staðið sig afar vel og nýtt tækifæri sín vel. Hann hefur tekið miklum framförum í sumar og vonandi heldur Viktor áfram á þeirri braut.

Dagur Ingi er tvítugur kant- og miðjumaður sem hefur komið við sögu í leikjum félagsins síðustu þrjú tímabil. Hann glímdi við meiðsli framan af tímabili en hefur fengið stærra hlutverk eftir því sem að liðið hefur á tímabilið. Dagur er sérlega leikinn með boltann og vonandi sjáum við Dag í enn stærra hlutverki í Grindavíkurliðinu á næstu árum.

Óliver Berg er 19 ára gamall og getur leikið bæði á vængnum og í bakverði. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik í sumar auk þess að leika með 2. flokki félagsins. Óliver hefur æft með meistaraflokki núna í rúmt ár og hefur bætt sig á mörgum sviðum. Hann hefur sýnt mikinn metnað í að bæta sig sem leikmaður og á sannarlega bjarta framtíð fyrir höndum.

Símon Logi er 19 ára framherji. Símon er nýlega farinn af stað á nýjan leik eftir erfið meiðsli sem hafa haldið honum frá keppni að mestu í sumar. Hann er kraftmikill framherji og stóð sig afar vel í æfingaleikjum með Grindavík í vetur áður en hann varð fyrir meiðslum. Vonandi sjáum við Símon Loga springa út hjá félaginu á næstu leiktíð.

Knattspyrnudeild Grindavíkur er afar stolt af því að semja við uppalda leikmenn sem hafa farið í gegnum uppeldisstefnu félagsins. Sjaldan hafa jafnmargir uppaldir leikmenn leikið með félaginu og í sumar og gefur það góð fyrirheit fyrir framtíðina.

Áfram Grindavík!